Barði NK kom með 2.140 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar á sunnudag og var það annar kolmunnatúr skipsins í Rósagarðinn. Í gærmorgun komu síðan Vilhelm Þorsteinsson EA og Börkur NK til hafnar í Neskaupstað vegna veðurs. Vilhelm Þorsteinsson var með 900 tonn af kolmunna og Börkur með 2.500 tonn. Lokið var við að vinna 1665 tonn af síld úr Beiti NK í morgun og nú verður hann einnig útbúinn til kolmunnaveiða.

Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, segir kolmunnaveiðina ganga vel.

„Það er ekki hægt að segja annað en að veiðin gangi vel og það er auðvitað mikilvægt að hún eigi sér stað í Rósagarðinum innan íslenskrar lögsögu. Þessi 2.500 tonn sem við komum með fengust í sjö holum. Stærsta holið var um 500 tonn en yfirleitt var dregið í átta til tólf tíma. Við vorum aðeins fjóra daga að veiðum þannig veiðin er bara ágæt. Við vorum mest allan tímann á sama svæðinu í Rósagarðinum eða á milli Bermúda og Vodkakassans. Á svipuðum slóðum voru ein sex eða sjö önnur íslensk skip og tvö færeysk. Það var komið í land vegna veðurs og það verður ekkert veður til veiða fyrr en á föstudag. Haldið verður til veiða á ný strax og veðrið gengur niður og þetta lítur allt saman ágætlega út. Menn hljóta bara að vera brattir og bjartsýnir,“ segir Hjörvar.