Beitir NK kom til Neskaupstaðar með makríl- og síldarfarm á laugardagsmorgun. Aflinn var alls 920 tonn og fór hann til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Tómas Kárason skipstjóra og spurði fyrst hvernig veiðin hefði verið.

„Veiðin var heldur treg þegar við vorum úti en hún hefur glæðst og var ágæt í gær. Það eru töluverðar sveiflur í veiðinni. Í veiðiferðinni tókum við sjö hol og fór aflinn úr þremur þeirra um borð í Vilhelm Þorsteinsson. Við fengum síðan afla úr fjórum holum frá Barða.

Makrílkvótinn er langt kominn hjá skipunum sem landa hjá Síldarvinnslunni. Nú eru menn farnir að hugsa til síldarvertíðar og á landleiðinni núna tókum við eina stutta síldarsköfu á Héraðsflóanum. Það var áhugi fyrir því að skoða ástand síldarinnar og því var þetta gert. Við fengum þarna 60 tonn af gullfallegri norsk-íslenskri síld. Ég reikna með að þetta hafi verið um 400 gramma síld. Ég trúi vart öðru en þessi síld gefi góð fyrirheit um síldarvertíðina sem framundan er,“ segir Tómas.

Síldin, sem Beitir kom með, var unnin í fiskiðjuverinu í gærkvöldi og í nótt og reyndist vera ágæt.

Í nótt kom Barði NK til Neskaupstaðar með um 1.000 tonn af makrílmiðunum. Fékkst aflinn í íslenskum sjó.