Hagnaður Vinnslustöðvarinnar var um 10 milljónir evra eftir skatta á árinu 2015, sem jafngildir 1,4 milljörðum króna, en var 7,2 milljónir evra árið 2014. Þetta kom fram á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.
Í ræðu Guðmundar Arnar Gunnarssonar stjórnarformanns VSV kom m.a. fram að mikil uppbygging hefði átt sér stað frá árið 2014 og næmu fjárfestingar um sjö milljörðum króna. Þær felast m.a. í smíðum á togaranum Breka VE í Kína sem væntanlegur er heim seint á þessu ári. Keypt voru uppsjávarskipin Ingunn og Faxi af HB Granda og með þeim fylgdi 0,7% aflahlutdeild í loðnu. Á móti hafa þrjú skip verið seld: Gamli Ísleifur, Jón Vídalín og Stígandi.
Þá standa yfir framkvæmdir við nýtt uppsjávarfrystihús, nýir hráefnisgeymar verða reistir á árinu og rými frystigeymslunnar verður fjórfaldað.
Vinnslustöðin verður sjötug milli jóla og nýárs í vetur og fagnar áfanganum á ýmsan hátt þegar nær dregur sjálfu afmælinu. Á aðalfundinum var hins vegar upplýst að stjórn félagsins hefði í tilefni afmælisins samþykkt að verja 10 milljónum króna til fegrunar og uppgræðslu í Vestmannaeyjum.
Sjá nánar á vef VSV