Seld voru 9.094 tonn í júní á fiskmörkuðum landsins sem er 50,7% meira en í júní 2008. Þetta er aðeins í fjórða sinn sem magnið fer yfir 9.000 tonn í mánuðinum, að því er segir í frétt frá Reiknistofu fiskmarkaða.
Söluverðmætið í júní var tæplega 1.819 milljónir króna sem er það langmesta í júnímánuði frá upphafi. Næstmest var það í júní 2001, 1.332 milljónir. Þetta er 59,3% meiri verðmæti en í júní 2008. Meðalverðið í júní var 199,98 krónur á kíló. Þetta er annað hæsta meðalverð í einum mánuði frá upphafi. Hæst var það í nóvember sl., 213,14 krónur á kíló.