„Umræðan hérlendis um að kvótauppboðin í Færeyjum hafi lukkast svo vel, að sjálfsagt sé að taka upp sama fyrirkomulag hér, er vægast sagt byggð á mikilli vanþekkingu. Menn reikna sig upp í háar fjárhæðir sem íslenskt samfélag hafi verið snuðað um og heimta breytingar strax í anda Færeyinga,“ sagði Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum í samtali við Fiskifréttir í dag.
Hann tók sem dæmi makrílinn sem sleginn var á 66 íslenskar krónur kílóið á uppboðinu í Færeyjum. Skilaverð á sjófrystum makríl frá Íslandi er núna um 122 krónur. Frá því dragast laun sjómanna sem eru 44 krónur. Síðan fara 16 krónur í olíu, 20 krónur í veiðarfæri og viðhald og 18 krónur í annan kostnað (tryggingagjöld, sölukostnað, löndun, flutninga o.fl.). Þá eru eftir 24 krónur í vexti, afskriftir, fjárfestingar og arð. Þessi útreikningur er byggður á reikniformúlum Hagstofunnar. Hvar á þá að taka 66 króna kvótagjaldið, spyr framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar og bætir við að þetta sé auðvitað glórulaust dæmi.
Sjá nánar í Fiskifréttum .