Hinu nýja, fullkomna og glæsilega uppsjávarfiskiskipi rússneska útgerðarfyrirtækisins Robinzon sem ber nafnið F/V MEKHANIK S. AGAPOV hefur gengið afburða vel að undanförnu með nýjan Gloríu 1600HS flottrollsbúnað frá Hampiðjunni, við makrílveiðar í Smugunni. Greint er frá þessu á vef Hampiðjunnar.
Skipið var tekið í notkun 2014 og er engin smásmíði. Það er 115 metra langt og 20 metra breitt og mælist tæplega 8.300 brúttótonn að stærð. Aðalvélin er 11.000 hestöfl og í áhöfninni eru 57 manns.
Dagana 28. júlí til 8. ágúst sl. slóst Aðalsteinn Snæbjörnsson, netagerðarmeistari og verkstjóri hjá Hampiðjunni og Sergey Karplyuk frá Hampiðjan Rússland í för með áhöfn rússneska frystitogarans. Markmið ferðarinnar var að fylgja eftir virkni uppsjávarveiðarfærisins ásamt tilheyrandi búnaði. Veiðiop Gloríu HS1600 flottrollsins með 14 fermetra Thyboron hlerum og 80 m gröndurum reyndist að meðaltali vera 58 metrar lóðrétt og 160 metrar lárétt.
Með þessum útbúnaði gengu veiðar með afbrigðum vel í samanburði við önnur skip á miðunum. Góð samvinna við skipstjóra og áhöfn hans skilaði hámarks árangri á tiltölulega skömmum tíma.