Í upphafi þessa árs var framkvæmdum við rafvæðingu fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað lokið. Kostir þess að nota rafmagn í stað olíu við framleiðslu á fiskimjöli og lýsi eru eftirfarandi:
Rafvæðingin stuðlar að betri nýtingu þeirrar orku sem framleidd er í landinu, þetta er umhverfisvæn framkvæmd, hún er gjaldeyrissparandi og hún leiðir til minni útblásturs frá verksmiðjunum.
Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er rætt við Guðjón B. Magnússon verksmiðjustjóra, Eirík Sören Guðnason vaktformann og Róbert Guðmundsson þurrkaramann um áhrif rafvæðingarinnar á störf þeirra.
Kemur fram í máli þeirra að þeir telji rafvæðinguna vera mikið og stórt framfaraskref og einhverja mestu byltingu sem átt hafi sér stað í fiskimjölsiðnaðinum frá því að eldþurrkunin leið undir lok. Nefndu þeir síðan eftirfarandi kosti sem starfsmennirnir upplifðu með tilkomu rafvæðingarinnar:
• Miklu léttara og betra er að keyra þurrkarana með raforku en olíu. Keyrslan er stöðugri og sveiflur hverfa nánast. Þessi breyting hefur í för með sér jafnari framleiðslu
• Allt framleiðsluferli er einfaldara en áður og færri tæki í gangi. Meðal annars eru 4 blásarar sem hreinsuðu loftið í verksmiðjunni ekki í notkun lengur og leiðir það til þess að miklu minni hávaði er á vinnustaðnum.
• Loftið í verksmiðjunni er miklu betra eftir að rafvæðingin kom til.
• Nú þarf ekki lengur að treysta á varmaskipta eins og þegar olían var orkugjafinn. Þegar varmaskiptarnir urðu óhreinir dró verulega úr framleiðslunni.
Sjá nánar á vef SVN