Á vef SFS er rýnt náið í skýrslu færeyskum nefndarinnar sem falið var að gera tillögur um breytingar færeyska fiskveiðikerfinu. Af uppboðum í ár fékk færeyska ríkið því sem samsvarar um 740 milljónir íslenskra króna. Tekjur íslenska ríkisins af veiðigjöldum eru áætlaðar um 8 milljarðar króna árið 2016. Í heild má gera ráð fyrir að gjaldtaka í færeyskum sjávarútvegi þetta árið verði um 2,7 milljarða íslenskra króna. Færeyskir sjómenn taka þátt í greiðslu þess kostnaðar að hluta.
Í færeysku skýrslunni er til þess mælst að horfið sé frá sóknardagakerfi og þess í stað tekið upp aflamarkskerfi. Horfa Færeyingar þar sérstaklega til reynslu Íslendinga og þeim árangri sem náðst hefur hér á landi með upptöku slíks kerfis. Einnig er vikið að reynslu Íslendinga af takmörkunum á hámarksaflahlutdeild fyrirtækja, en hér á landi miðast hámarkið við 12% af úthlutuðum þorskígildum. Þá er sérstaklega að því vikið hvernig íslenskur sjávarútvegur hefur náð að auka verðmætasköpun með lóðréttri samþættingu, þar sem keðja veiða, vinnslu, sölu og markaðssetningar er óslitin.
Sjá nánar á vef SFS .