Togarinn Runólfur SH frá G.RUN í Grundarfirði er loks kominn í gagnið á ný eftir langt hlé. Hann hefur verið í slippnum í Reykjavík undanfarið.

„Hann er búinn að vera stopp í sjö mánuði báturinn. Það hrundi gírinn í honum,“ segir Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri G.RUN í Grundarfirði. Leitað var til fyrirtækis í Danmörku þegar bilunin kom upp.

Hinn báturinn á útopnu

„Við pöntuðum nýjan gír og gírframleiðandinn sveik okkur um afhendingu.  Hann var nærri þrjá mánuði á eftir með afhendingu á nýjum gír. En nú báturinn klár,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Smári Guðmundsson (Mynd/Fiskifréttir: GE)
Guðmundur Smári Guðmundsson (Mynd/Fiskifréttir: GE)
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Já, þetta var mjög erfitt fyrir okkur,“ svarar Guðmundur spurður hvort hið langa stopp hafi ekki verið dýrkeypt fyrir útgerðina. „Við náðum að keyra hinn bátinn okkar á útopnu með tveimur áhöfnum svoleiðis að það slapp.“

Engin verkefni bíða hins vegar Runólfs fyrst um sinn heldur siglir hann til heimahafnar og beint inn í sumarfrí.

Strandveiðiaflinn tekinn af honum

„Nú erum við bara að fara í sumarfrí og allt fiskverkafólkið fer í frí í júlí. Á meðan hobbíkarlarnir í strandveiðum vilja róa þegar þeir eru í fríi í júlí þá vill fiskverkafólkið okkar fá frí,“ segir Guðmundur sem  kveður dæmið ganga illa upp. „Sá fiskur er fluttur í eina eða tvær vinnslur á Íslandi og til útlanda óunninn.“

Þetta fer illa saman að sögn Guðmundar. „Strandveiðiaflinn hefur bara verið tekinn af mér, það er ekki flóknara. Vinnslur vítt og breitt um landið er stopp alveg í sex vikur vegna hráefnisskorts á eigin skipum,“ segir hann. Strandveiðiaflinn sé því ekki að nýtast á þann hátt sem matvælaráðherra haldi fram.