Bandarísk stjórnvöld hafa frestað til ársins 2024 gildistöku hertra innflutningsreglna sem áttu upphaflega að taka gildi í byrjun árs 2022. Þetta kom fram á aðalfundi Landssambands smábátasjómanna, sem haldinn var um miðjan október.
Reglurnar eru settar til varnar sjávarspendýrum og sérstaklega hefur þar verið horft til meðafla í netaveiðum. Bandarísk stjórnvöld hafa einsett sér, eftir að hafa tapað dómsmáli um þetta efni, að framfylgja til hins ítrasta ákvæði í bandarískum lögum sem felur í sér að banna þurfi innflutning á afurðum úr veiðum sem skaða sjávarspendýr á borð við seli.
Lengst af hefur verið frekar óljóst hvaða kröfur nákvæmlega Bandaríkin hyggjast gera til annarra ríkja vegna þessa, en augu manna hér á landi hafa sérstaklega beinst að grásleppuveiðum vegna sela sem koma þar sem meðafli.
Meðaflinn varð einnig til þess að grásleppuveiðar hérlendis misstu MSC-vottun, en grásleppusjómenn sáu sér á endanum ekki annað fært en að taka á þessum vanda og vinna með stjórnvöldum og Hafrannsóknastofnun að því að vernda seli, meðal annars með lokun svæða í Breiðafirði.
Þessar aðgerðir urðu til þess að MSC-vottun veiðanna var endurheimt, og eru þær nú vottaðar til 16. nóvember árið 2025.
Óljóst er hins vegar hvort þessar aðgerðir duga til að standast þær kröfur sem Bandaríkjamenn ætla að gera til innflutnings. Fresturinn til 2024 veitir þó aukið svigrúm til þess að vinna úr þeirri óvissu.