Akureyrarhöfn hefur tekið í notkun öflugasta dráttarbát landsins sem heitir í höfuðið á höfuðguð grískrar goðafræði, Seifur. Toggetan er 42 tonn og hann er einstaklega lipur í meðförum. Skrúfurnar eru tvær og geta snúist í 360° og getur Seifur því snúið við „á punktinum“. Mikil og uppsöfnuð þörf var fyrir dráttarbátinn ekki síst þegar litið er til þess að komum skemmtiferðaskipa hefur fjölgað gríðarlega hjá Hafnasamlagi Norðurlands.

[email protected]

Maron Björnsson er einn af skipstjórum Seifs  hefur fylgst með smíði bátsins ásamt Hilmari Guðmundssini vélstjóra frá því hún hófst í Navia á Norður-Spáni í október 2017. Báturinn kom til Akureyrar í sumarbyrjun. Fyrsta skipið sem Seifur tók í tog var 113.000 tonna og gekk allt að óskum í fyrsta verkefninu. Maron segir verkefnin ekki síst að draga skipin frá bryggju því sunnanáttin geti valdið vissum erfiðleikum á Oddeyrarbryggjunni. Seifur er með 3.200 hestafla vél og segir Maron olíueyðsluna mun minni en reiknað hafði verið með. Báturinn kostaði 500 milljónir króna.

Fram að þessu hafði hafnasamlagið einungis yfir að ráða dráttarbátnum Sleipni sem smíðaður var 1995  og Mjölni sem var smíðaður 1986. Sleipnir er með tólf tonna togkraft.

Uppsöfnuð þörf

„Þetta er fyrsti dráttarbáturinn á Íslandi sem er smíðaður frá grunni með svokölluðum Azipod skrúfubúnaði. Þetta þýðir að skrúfurnar geta snúið um 360° og gerir bátinn lipran og öflugan. Hér hefur verið uppsöfnuð þörf fyrir bát af þessu tagi. Skipakomum fjölgar stöðugt hjá okkur. Þegar ég hóf störf hérna fyrir ellefu árum voru komur skemmtiferðaskipa 42 það árið en allt árið núna koma 182 skemmtiferðaskip og er þá Grímsey og Hrísey meðtalin,“ segir Maron.

Til fjölda ára hefur aukning í komu skemmtiferðaskipa verið 10-15% á hverju ári. Maron segir höfnina geta annað enn meiri umferð byðist hún. Hann bendir á að tímabil skemmtiferðaskipanna hafi lengst. Fyrsta skipið á þessu ári kom 5. maí sem er 10 dögum fyrr en árið 2017. Síðasta stóra skemmtiferðaskipið kemur svo 25. september.

Sex hafnir

„Á þessu ári koma hingað um 190.000 manns, áhöfn og farþegar og það verður aukning 2019, með fleiri skemmtiferðaskipum. Þegar skipin eru talin í tonnum þá eru þau komin yfir 5,2 milljónir tonna en það eru tonnin sem gefa hafnasamlaginu tekjurnar, ásamt farþegafjöldanum. Umsvifin eru mikil fyrir þjónustuaðila á Akureyri í tengslum við komu skipanna,“ segir Maron.

Hafnasvæði Hafnasamlags Norðurlands er gríðarlega stórt. Það nær yfir Akureyri, Svalbarðseyri, Hjalteyri, Grenivík, Hrísey og Grímsey, alls sex hafnir. Ekki er þörf fyrir dráttarbát í þeim öllum en Hafnasamlagið hefur veitt hafnsöguþjónustu á Húsavík. Þar hefur Sleipnir verið við verkefni vegna komu skipa fyrir kísilverksmiðjuna á Bakka.

Maron segir að Sleipnir sé í toppstandi og verði í rekstri samhliða Seif. Tvær skrúfur eru í skut Seifs og þær geta báðar snúist í 360°. Hægt er að blanda saman ólíkum stefnum á hvorri skrúfu og býður búnaðurinn upp á ótal möguleika í stýringu á bátnum. Talsverða þjálfun þarf til að ná tökum á þessu og fóru skipstjórarnir í eina viku í þjálfun til Hollands. 25 tonna spil eru á honum bæði í skut og stefni og eru ofurtóg frá Hampiðjunni á þeim báðum.