„Út úr þessari Grænbók má lesa aukinn vilja framkvæmdastjórnar ESB til þess að hverfa frá hinum svokallaða hlutfallslega stöðugleika í sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins, þannig að við getum ekki treyst því að sú regla haldi þegar til lengri tíma er litið,” segir Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ í samtal við Fiskifréttir.
Með hlutfallslegum stöðugleika er átt við þá reglu að fiskveiðiréttindi sem tilheyrðu viðkomandi þjóðum fyrir inngöngu þeirra í sambandið haldist áfram í þeirra höndum.
Friðrik bendir á að árið 2002 þegar sjávarútvegsstefna ESB var síðast endurskoðuð hafi framkvæmdastjórn sambandsins lýst vilja sínum til þess að breyta reglunni um hlutfallslega stöðugleikann en núna sé greinilega aukinn vilji í þessa átt af hennar hálfu.
Að sögn Friðriks ber þó að hafa í huga í þessu sambandi að nær öll aðildarríkin eru andvíg því að hverfa frá þessari reglu þannig að ólíklegt er að einhverjar breytingar verði á þessu fyrirkomulagi alveg á næstunni.