Íslendingar standa Norðmönnum og öðrum þjóðum framar á flestum sviðum sjávarútvegs og greiða miklu hærri gjöld til samfélagsins, segir forstjóri Samherja.
Í nýjustu Fiskifréttum er greint frá erindi sem Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja flutti á ársráðstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) á dögunum, en þar gerði hann samanburð á ýmsum þáttum sjávarútvegs á Íslandi og í Noregi.
Hann benti á að vinnslustig væri hærra á Íslandi sem lýsti sér m.a. í því að hlutfall útfluttra þorskafurða sem væru lítið eða ekkert unnar væri 90% í Noregi en 20% á Íslandi. Afleiðingin væri sú að afurðaverðmæti á hvert kvótakíló væri þriðjungi hærra hér en í Noregi. Þorskverð til skipa væri sömuleiðis hærra hérlendis og laun í fiskvinnslu væru hærri á fiskiðjuverinu á Dalvík en hjá hliðstæðum fyrirtækjum í Noregi.
Þá væru engin sértæk gjöld lögð á sjávarútveg í Noregi gagnstætt því sem gerðist á Íslandi. Nefndi hann í því sambandi að ef hliðstæð gjöld væru lögð á í Noregi og tíðkast á Íslandi myndu þau nema 110 milljörðum íslenskra króna.
Þorsteinn Már sagði að þrátt fyrir þetta væri umræða um íslenskan sjávarútveg önnur og neikvæðari hérlendis en erlendis.
Sjá nánar í Fiskifréttum.