Dómstóll í Edinborg dæmdi síðastliðinn föstudag sautján skoska skipstjóra til þess að greiða samtals þrjár milljónir sterlingspunda eða jafnvirði 560 milljóna íslenskra króna fyrir að hafa landað makríl- og síld framhjá vigt á árunum 2003-2005 í Leirvík á Hjaltlandi og Peterhead í Skotlandi. Skipstjórarnir viðurkenndu brot sitt.
Í frétt um málið á vefnum FISHupdate.com er ekki getið um það hversu miklu magni var svindlað framhjá vigt, en umrædd fjárhæð svarar væntanlega til verðmætis hins ólöglega afla. Sjálfir sektardómarnir yfir skipstjórunum verða hins vegar kveðnir upp 23. janúar næstkomandi.