Þrjú íslensk skip eru nú að veiðum á norsk-íslenskri síld í færeysku lögsögunni. Meðafli í makríl er um 30% og er óttast að makrílkvóti íslenskra skipa í færeysku lögsögunni sé að klárast, að því er Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, sagði í samtali við Fiskifréttir nú fyrir stundu.
Lundey NS er á partrollveiðum með Faxa RE en auk þeirra er Hákon EA þarna að veiðum. ,,Við komum í fyrradag og veiðin hefur verið góð síðan. Við byrjuðum á móti Ingunni AK og er hún nú á leið í land með fullfermi í kælitönkum og er stefnt að því að vinna aflann til manneldis. Þegar við komum höfðu nokkur íslensk skip verið hér í góðri veiði. Makrílkvóti okkar í færeysku lögsögunni er svo lítill að ég óttast að hann verði brátt uppurinn. Makríllinn er hér víða og ekki gott að forðast hann. Þegar kvótinn klárast verðum við að fara í íslenskan sjó á ný,“ sagði Arnþór.
Fram kom hjá Arnþóri að íslensku skipin væru á frekar óvenjulegum tíma í færeysku lögsögunni að þessu sinni. Yfirleitt hefðu þau verið að veiðum þar í maí og fylgt síldinni þaðan eftir. ,,Annars hefur verið allur gangur á því hvernig norsk-íslenska síldin hagar sér,“ sagði Arnþór.
Hin síldarskipin eru að veiðum á dreifðu svæði í íslensku lögsögunni og frést hefur að tvö þeirra hafi fengið því sem næst hreinan makríl mjög vestarlega.