Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda segir í samtali við Fiskifréttir að ýmsar skýringar séu á miklum mun á hráefnisverði makríls í Noregi og á Íslandi sem sagt er frá í fréttinni hér fyrir neðan. Í Noregi sé uppsjávarfiskur seldur hæstbjóðanda á uppboði. Vinnslugetan þar í landi sé langt umfram framboðið, Minni fyrirtæki hafi undantekningarlítið orðið gjaldþrota og verið keypt upp af hinum stærri en samt sé afkoma vinnslunnar í landi afar neikvæð á sama tíma og útgerðin blómstri.
Ennfremur verði að hafa í huga að útflutningsverðmæti makríls frá Íslandi sé töluvert lægra en í Noregi vegna þess að veiðarnar við Ísland séu stundaðar á sumrin þegar makríllinn sé ekki eins verðmæt söluvara og hann verður síðar árinu.
,,Þá fer því fjarri að þessi verðmunur skili sér allur í vasa norska sjómanna. Norskir sjómenn á uppsjávarskipum fá 26-28% af aflaverðmæti meðan íslenskir sjómenn fá 35-36% hlut." Hann bætir því við að samanburður sem HB Grandi hafi gert á tekjum sjómanna eftir loðnuvertíðina í fyrra hafi sýnt að íslenskir loðnusjómenn hafi ekki borið skarðan hlut frá borði samanborið við norska sjómenn miðað við hvert veitt tonn.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.