Bresk smásölu- og vinnslufyrirtæki hafa ákveðið að láta missi MSC-vottunar uppsjávarfiskveiða ekki hafa áhrif á innkaupastefnu sína. Í bili að minnsta kosti.
Samtökin North Atlantic Pelagic Advocacy group, eða NAPA, hafa ákveðið að veita strandríkjunum þriggja ára frest til að endurheimta vottun fyrir uppsjávarstofnana þrjá, makríl, síld og kolmunna. Fréttavefurinn Undercurrent News greinir frá þessu.
Flest bresk smásölu- og vinnslufyrirtæki eiga aðild að NAPA, samtökum sem stofnuð voru fyrr á árinu til þess að þrýsta á strandríkin um að ná samkomulagi um betri fiskveiðistjórn.
MSC-vottun sjálfbærra veiða féll vegna þess að strandríkin hafa ekki getað komið sér saman um skiptingu veiðanna, þannig að undanfarin ár hefur verið veitt töluvert umfram ráðgjöf.
NAPA telja þó óhætt að gefa þennan umþóttunartíma í trausti þess að stofnarnir séu sterkari en talið hefur verið.
Þessu tengt hefur norski mjölframleiðandinn Skretting sömuleiðis gefið til kynna stuðning við kolmunnaveiðarnar, þrátt fyrir vottunarmissi, en Skretting hafði hótað því að hætta að kaupa kolmunna til mjölvinnslu verði sjálfbærnivottun afturkölluð.
Afturköllun MSC-vottunar nær til veiða Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga, Norðmanna, Breta og Evrópusambandsríkja á uppsjávarstofnunum í Norðaustur-Atlantshafi.