Færeyski skuttogarinn Sjagaklettur verður brátt sendur til Danmerkur þar sem hann verður rifinn niður í brotajárn. Margir íslenskir sjómenn þekkja þetta skip því það var gert út frá Íslandi um langt árabil, hét síðast Dala-Rafn VE-508.
Frá þessu er greint á færeyska vefnum skipini.fo. Fram kemur í fréttinni að Sjagaklettur sé í svo slæmu ástandi að útgerð hans telji að ekki svari kostnaði að gera hann upp. Undanfarið hefur Sjagaklettur verið á partrollveiðum á móti Vesturleika úr Sørvági.
Sjagaklettur var smíðaður í Noregi 1975. Hann kom til Íslands nýsmíðaður og hét þá Skinney SF. Árið 1977 var hann seldur til Vestmannaeyja og fékk nafnið Sindri VE. Árið 1993 skipti togarinn enn um eigendur og hét eftir það Dala-Rafn VE þar til hann var seldur úr landi árið 2003.