Þetta kom fram í erindi sem Sigmar Arnar Steingrímsson sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun flutti í málstofu stofnunarinnar í síðustu viku.

„Erfitt er að áætla heildarstærð kóralsvæða við Ísland, en út frá þeim takmörkuðu upplýsingum sem við höfum í höndunum, til dæmis af gömlum fiskikortum og upplýsingum frá Fiskistofu, má telja að svæðin sem þar um ræðir séu innan við 200 ferkílómetrar að flatarmáli. Að viðbættum öllum öðrum svæðum gætu þetta verið í heild innan við 500 ferkílómetrar,“ sagði Sigmar.

Kóralsvæðin eru fyrst og fremst í kantinum austan frá Rósagarði vestur með suðurströndinni og norður fyrir Reykjaneshrygg.

Viðtöl við sjómenn

Að sögn Sigmars hófst undirbúningur að þessu rannsóknastarfi á síðasta ári með því að menn frá Hafrannsóknastofnun áttu samtöl við aldraða skipstjórnarmenn sem höfðu reynslu af veiðum frá því fyrir 1950. Jafnframt voru sendar fyrirspurnir til starfandi skipstjórnarmanna.

„Tilgangurinn með þessum viðtölum var að átta sig á sögulegri útbreiðslu kóralsvæða fyrr á tíð. Einnig var leitað vitneskju um kóralsvæði eftir að skuttogaravæðingin hófst um og upp úr 1970. Loks var svo reynt að gera sér mynd af ástandinu í dag með fyrirspurnum til rúmlega 20 starfandi skipstjóra á ýmsum tegundum skipa og veiðarfæra. Með því að safna saman þekkingu sjómanna á þennan hátt spörum við tíma og auðveldum okkur að forgangsraða kóralsvæðunum eftir því í hve mikilli hættu þau eru. Áherslan er fyrst og fremst lögð á að kanna ástand kórals sem er inni á hefðbundinni togslóð og vernda þau svæði,“ sagði Sigmar.

Með fjölgeislamæli og neðansjávarmyndavél

Rannsóknirnar á þessu ári hófust með því að rannsóknaskip kortlagði með fjölgeislamæli allan landgrunnskantinn þar sem kóralsvæði er að finna, allt frá Reynisdýpi austur í Rósagarð.

„Með því að nýta okkur reynslu Norðmanna af því að túlka landslag á sjávarbotni út frá slíkum kortum gátum við fundið líklega staði þar sem góð skilyrði væru fyrir kóral. Þetta gerði neðansjávarmyndatökurnar miklu markvissari en ella hefði verið. Kóralarnir sem við fundum voru að sjálfsögðu misstórir en þeir stærstu voru hálfur til einn metri á hæð,“ segir Sigmar.

Kóralsvæði hafa tapast

-Er ástæða til að ætla að víðáttumikil kóralsvæði hér við land hafi verið eyðilögð með togveiðarfærum á undanförnum áratugum?

„Kóralsvæði hafa tapast – á því er enginn vafi. Sem dæmi má nefna að stórt kóralsvæði, sem var skráð á fiskikortum upp úr 1980 á Fjöllunum suðvestur af landinu, virðist ekki vera þar lengur. Þá bentu neðansjávarmyndatökur okkar í sumar á sjávarbotni suður af Öræfagrunni til þess að þar hefði verið kórall hér áður fyrr en hann er horfinn núna. Hins vegar er erfitt að slá neinu föstu um það hversu miklum kóral hefur verið eytt með togveiðarfærum. Til þess skortir rannsóknir. Kjörsvæði kóralsins virðist vera við landgrunnsbrúnina sem er trúlega tengt því að hann nýtir sér næringu sem kemur með uppstreyminu úr djúpinu. Einnig takmarkast útbreiðsla kóralsins við ákveðið hitastig. Kóralsvæðin hér við land eru yfirleitt ekki víðáttumiklar samfelldar breiður heldur er útbreiðslan blettótt.”

– Hversu mikilvæg eru kóralsvæðin? – Hvers vegna er mikilvægt að vernda kóralsvæði? – Hafa þau mikla þýðingu fyrir vöxt og viðgang fiskistofna?

„Það er vitað að dýralíf á kóralsvæðum hér í Norðurhöfum er geysilega fjölbreytt og raunar má líkja fjölbreytileikanum við kóralrif í Suðurhöfum þótt lífríkið sé annars eðlis. Talið er að á kóralsvæðum geti skapast góð ætisskilyrði fyrir fiskungviði og þar geti myndast skjól fyrir afræningjum. Þá er þekkt að góð fiskimið eru gjarnan í kringum kóralsvæði. Ekki er þó hægt að slá neinu föstu um mikilvægi kóralsvæða fyrir vöxt og viðgang nytjastofna okkar. Til þess skortir rannsóknir á vistfræði þessara búsvæða en nokkrar rannsóknir eru hins vegar þegar byrjaðar erlendis. Norðmenn eru komnir lengst í að kortleggja kóralsvæði. Áætlað er að við Noreg séu þessi svæði samtals 1500-2000 ferkílómetrar að flatarmáli. Kóralsvæðin við Noreg hafa þá sérstöðu að þau eru ekki bundin við landgrunnsbrúnirnar eins og hérlendis heldur teygja þau sig upp allt landgrunnið og jafnvel inn á firði. Þar finnast kóralar upp á 40 metra dýpi en venjulega er kjörsvæði kórala hér í Atlantshafi frá 200 metrum og niður á 1500 metra dýpi,“ sagði Sigmar Arnar Steingrímsson.