Aflaverðmætið nam alls um 92 milljónum króna og er þetta eitt mesta aflaverðmæti sem íslenskt skip hefur komið með að landi. Aflaverðmætið á úthaldsdag er tæpar 2,8 milljónir króna og eru siglingardagarnir þá taldir með.

Fiskifréttir ræddu við Guðmund Þ. Jónsson, skipstjóra á Baldvini Þorsteinssyni EA, eftir veiðiferðina.

„Það hafði verið frekar lítill afli hjá togurunum dagana áður en við komum á miðin en skipin höfðu þó verið að fá upp í 20 tonn eftir 15 til 16 tíma hol. Aflinn var reyndar að glæðast og fyrstu dagana eftir að við komum á svæðið var algengur afli um þrjú tonn á togtímann eða um 25 til 30 tonn eftir átta til tíu tíma hol. Besti aflinn, sem ég heyrði um, var hjá Venusi HF en það voru 50 tonn eftir tíu tímana,“ segir Guðmundur.

330 tonn á ellefu dögum

Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri á Baldvini Þorsteinssyni EA.
Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri á Baldvini Þorsteinssyni EA.

Baldvin Þorsteinsson EA hafði verið á karfa- og þorskveiðum innan landhelginnar þegar ákveðið var að ljúka túrnum á úthafskarfaveiðunum. Skipið var komið með um 600 tonna afla upp úr sjó þegar haldið var í úthafið og á 11 dögum fengust alls 330 tonn af góðum djúpkarfa á svæðinu frá um 170 mílum frá landi og rétt út fyrir landhelgismörkin á Reykjaneshryggnum.

„Þegar við komum á miðin voru alls um sex til átta íslenskir togarar að veiðum um 30 sjómílur innan við landhelgismörkin en fjöldi erlendra togara var þá að veiðum á sjálfri landhelgislínunni og jafnvel inni í landhelginni eins og komið hefur fram. Veiðin færðist fljótlega suður undir landhelgislínuna og þessa 11 daga vorum við mest að veiðum á sjálfum Reykjaneshryggnum innan og utan landhelginnar,“ segir Guðmundur.

Til upplýsingar má geta þess að umrætt svæði er rétt norðvestur af hinum svokallaða Franshól sem þekktur var fyrir góða blálönguveiði fyrir nokkrum árum. Íslenskir togarar reyndu þar blálönguveiðar í einhverjum mæli í vor og sagði Guðmundur að Örfirisey RE hefði fengið þar einhvern afla. Hins vegar væri veiðin ekki svipur hjá sjón ef miðað væri við aflabrögðin á Franshólnum fyrir nokkrum árum.

Fínasti djúpkarfi seldur sem úthafskarfi

Fiskifréttir 8.maí 1998.
Fiskifréttir 8.maí 1998.

Guðmundur segir að þegar Baldvin Þorsteinsson EA hélt til hafnar hafi algengur afli á togtímann verið um tvö tonn.

„Það er mjög ásættanlegt að fá hálft annað og upp í tvö tonn á togtímann enda er djúpkarfinn, sem þarna veiðist á þessum árstíma, mjög gott hráefni. Karfinn að þessu sinni var heldur stærri en á sama tíma í fyrra og megnið af aflanum fór nú í betri stærðarflokkana. Það er hins vegar sorglegt að þessi fiskur skuli vera flokkaður sem úthafskarfi því það hefur áhrif á verðið. Þótt við séum þarna að veiða fínasta djúpkarfa, sem við værum ánægðir með að fá um eitt tonn af á togtímann á kvótabundnum veiðum inni í landhelginni, þá er hann verðlagður sem úthafskarfi. Sú fisktegund sést ekki á þessu svæði og í fyrra varð hins eiginlega úthafskarfa ekki vart fyrr en með haustinu og þá inni í grænlensku landhelginni. Það hlýtur að vera stórkostlegt áhyggjuefni fyrir Íslendinga að stór floti verksmiðjuskipa frá hinum og þessum löndum skuli vera að veiða djúpkarfann sem úthafskarfa. Þetta er sami karfinn og við verðum að leggja til kvóta með ef hann veiðist innan 160 sjómílna frá landinu. Djúpkarfaveiðin hefur dalað mjög mikið á hefðbundnum miðum undan landinu en hins vegar virðist gullkarfinn aðeins vera að koma upp,“ segir Guðmundur.

Segir Guðmundur það umhugsunarvert að ekki séu nema um 50 sjómílur á milli hefðbundinna djúpkarfamiða innan landhelginnar og svæða á úthafskarfamiðunum sem gáfu góðan djúpkarfaafla á dögunum.

Mikið um  landhelgisbrot

Að sögn Guðmundar eru skipstjórar margra erlendu togaranna mjög aðgangsharðir við landhelgismörkin og hann segir það daglegt brauð að þeir fari vel inn í íslensku landhelgina.

„Það er til skammar hvernig staðið er að gæslu á þessu svæði. Flugvél  Landhelgisgæslunnar sást ekki fyrr en skipstjórar íslensku skipanna vöktu athygli á landhelgisbrotunum. Það hefur þó lítið að segja að flugvél fljúgi yfir svæðið í nokkrar mínútur annan hvern dag. Um leið og flugvélin er horfin úr sjónmáli fara skipin inn fyrir línuna að nýju og ekki síst eftir að dimmir á kvöldin. Maður hefði haldið að þarna væri full ástæða til að hafa varðskip á þessum árstíma. Þetta er eini staðurinn á allri landhelgislínunni umhverfis landið þar sem veruleg hætta er á landhelgisbrotum. Þetta vita allir og mér finnst alveg furðulegt að Landhelgisgæslan skuli ekki vera þarna með skip. Það er nógu slæmt að erlendar þjóðir geti mokað upp djúpkarfa, sem hugsanlega er af sama stofni og er kvótabundinn innan landhelginnar, í skjóli þess að um úthafskarfaveiðar sé að ræða þótt þeir fari ekki inn í íslenska landhelgi til þess að ná í fiskinn. Að mínu mati þyrfti Gæslan ekki að taka nema eitt skip til þess að hræða skipstjóra allra hinna. Á meðan ekkert er gert þá ganga menn einfaldlega á lagið,“ segir Guðmundur Þ. Jónsson.