Lítið hefur verið um það hin síðari ár að bátar séu gerðir út gagngert til lúðuveiða en þó hafa slíkar veiðar verið stundaðar í einhverjum mæli flest ár. Í sumar hafa t.d. fjórir bátar stundað lúðuveiðar undan suður- og vesturströnd landsins en svo kann að fara að þessi veiðiskapur leggist af.

Fiskifræðingar hafa áhyggjur af lúðustofninum og þeir hafa lagt til að aðeins verði heimilt að veiða lúðu sem aukaafla á öðrum veiðum. Þetta þykja lúðuveiðimönnum óþarfa áhyggjur og ofstjórn. Þeir halda því fram að engar fiskifræðilegar rannsóknir eða rök búi að baki þessari tillögu.

Fiskifréttir ræddu við Kristin Arnberg Sigurðsson skipstjóra og útgerðarmann Gullfaxa GK frá Grindavík en Gullfaxi GK er einn þeirra báta sem stundað hafa lúðuveiðarnar í sumar. Gullfaxi GK er 63 brúttórúmlesta eikarbátur og hafa Kristinn og hans menn stundað lúðuveiðamar á bátnum sl. tvö sumur.

Svo sem að framan kemur hafa stórlúðuveiðar löngum þótt heillandi veiðiskapur og til eru margar sögur um baráttu manna við þessi ferlíki.

Gráðug og stærst allra flatfiska

Í bók Gunnars Jónssonar fiskifræðings, Íslenskir fiskar, er lúðunni lýst sem svo að hún sé stærst allra flatfiska og með allra stærstu beinfiskum og sá stærsti hér við land. Vitað er um 66 kílóa lúðu sem veiddist við norðanvert landið sumarið 1935 og  var hún 365 sentímetrar að lengd og 45 sentímetra þykk. Heimkynni lúðunnar eru allt í kringum landið en hún þykir þó algengust sunnan- og vestanlands.

Fiskifréttir 11. ágúst 2000.
Fiskifréttir 11. ágúst 2000.

Það segir sína sögu um þennan fisk að hann gengur undir hinum ýmsu nöfnum eftir því hvar á landinu veiðarnar hafa verið stundaðar og í bók Gunnars eru nefnd 14 heiti auk lúðunafnsins. Þau eru stórlúða, stórflyðra, flyðra, spraka, heilagfiski, merja, stegla, lok, flóki, lóa, sprek, brosma, kvörn og depla.

Lúðan er sögð gráðugur fiskur og segja má að stórlúðan láti allt ofan í sig sem hún á annað borð ræður við.

Hafa sótt 120 mílur út á Reykjaneshrygginn

Gullfaxi GK er einn þeirra báta sem hefur yfir mjög litlum veiðiheimildum að ráða og við úthlutun fyrir yfirstandandi fiskveiðiár komu aðeins 16 þorskígildistonn í hlut bátsins. Útgerð bátsins hefur því leitað leiða til þess að veiða tegundir utan kvóta og eru lúðuveiðarnar á sumrin liður í því. Að sögn Kristins er besti lúðuveiðitíminn frá því í maí og fram í september og segir Kristinn að afli bátsins hafi verið góður í sumar.

Auk Gullfaxa GK hafa Guðrún Björg GK, Margrét AK og Máni ÁR stundað veiðarnar. „Við höfum stundað veiðar á svæðinu frá því austan fyrir Vestmannaeyjar og vestur fyrir Vestfirði. Auk íslensku bátanna hafa tveir Færeyingar verið á lúðuveiðum í íslensku landhelginni en þetta er síðasta sumarið sem færeyskum bátum er heimilt að veiða hér lúðu,“ segir Kristinn en hann segir að oft á tíðum hafi áhöfnin á Gullfaxa GK sótt mjög langt. Lengst hafi verið farið um 100 til 120 mílur út frá Reykjanesi og Garðskaga og ar hafi fengist ágætur afli.

Engar forsendur fyrir banni

Bann við lúðuveiðum eingöngu blasir nú við og Kristinn segir að banna eigi veiðarnar frá og með haustinu. Hann er ósáttur við þessa ákvörðun og segir engar fiskifræðilegar forsendur liggja þar að baki.

„Það skiptir ekki nokkru máli þótt þrír til fjórir bátar séu gerðir út til lúðuveiða á hverju sumri. Fiskifræðingarnir vita ekkert um lúðustofninn frekar en flesta aðra fiskistofna og ég er sannfærður um að það er vegna þrýstings frá LÍÚ og stórútgerðunum að ákveðið hefur verið að banna lúðuveiðarnar utan hvað menn mega veiða lúðu sem aukaafla á öðrum veiðum. Kvótaeigendurnir eru staðráðnir í því að koma í veg fyrir að kvótalausir og kvótalitlir bátar geti verið að veiðum. Ef þeim tekst að koma í veg fyrir að við getum sótt í tegundir eins og lúðu sem er utan kvóta þá er rekstrargrundvellinum kippt undan útgerð þessara báta og við verðum að hætta veiðum eða leigja kvótann af stórútgerðunum,“ segir Kristinn.

Snurvoðin drepur smálúðuna

Kristinn segist óánægður með að Hafrannsóknastofnun skuli láta nota sig í stríði LÍÚ gegn kvótalausu bátunum og að stofnunin skuli leggja til bann við lúðuveiðunum. „Þetta er fráleit tillaga. Þjóðverjar stunduðu hér lúðuveiðar frá 1860 og Íslendingar og fleiri þjóðir hafa veitt mikið magn af lúðu hér í áranna rás án þess að stofninum væri hætta búin. Það er fyrst núna þegar nánast engir bátar stunda veiðarnar að fiskifræðingar telja að lúðustofninn sé ofveiddur. Helsta hættan sem lúðustofninn stendur frammi fyrir eru snurvoðaveiðamar. Snurvoðin tekur mikið af smálúðunni á meðan hún er á grunnslóðinni og ef menn vilja vernda lúðustofninn þá ættu þeir að byrja að huga að snurvoðaveiðunum. Það virðist annars lítið talað um skaðsemi snurvoðarinnar nú um stundir. Það eru ekki mörg ár síðan að stóru Glettingsbátarnir, 350 til 400 tonna bátar, fengu að fara með snurvoð upp í landsteina við  suðurströndina og þeir eru nú búnir að hreinsa upp kolastofnana frá Vík í Mýrdal og vestur undir Garðskaga,“ segir Kristinn.

Á allt að 550 faðma dýpi

Lúðuveiðarnar eru stundaðar með lúðulínu eða svokallaðri haukalóð og leggja Kristinn og hans menn línuna í sex til sjö stubbum og eru fimm balar af línu í hverjum stubbi. Í sumar hefur lúðan verið veidd niður á allt að 550 faðma dýpi og í besta róðrinum í sumar fengust 3,5 tonn af lúðu um 120 mílur út af Reykjanesi og meðal annars fengust þá tvær 180 kílóa stórlúður.

„Við erum komnir með 22 tonn af lúðu í sumar og samkvæmt því erum við búnir að þurrka upp stofninn. Reyndar vonast ég til þess að enn verði hægt að fá góðan afla áður en veiðunum lýkur og í fyrrasumar fengum við sex tonn í einum róðri eftir verslunarmannahelgina,“ segir Kristinn Arnberg Sigurðsson.