Ferðin gekk vel fyrstu tvo dagana en á þriðja degi, 29. júní um klukkan 15.00 hafði þýskur kafbátaforingi Heklu í miði sínu og skaut hann tundurskeyti að skipinu.
Skeytið tætti kjöl Heklu í sundur að framan verðu og alveg aftur að vélarrúmi. Mikill sjór komst í skipið, það stakkst á stefnið og á tveimur mínútum hvarf það í hafið.
Þrettán menn fórust með skipinu er það sökk en sjö mönnum tókst að halda sér uppi á sundi og ná á björgunarfleka sem losnað hafði af skipinu og flaut uppi eftir að Hekla var horfin í hafið. Mikill matarforði var á flekanum og kom það sér vel því mennirnir sjö þurftu að dvelja í tíu og hálfan sólarhring á flekanum.
Vatnsleysi plagaði skipbrotsmennina, en vegna takmarkaðs vatnsforða gripu þeir strax til strangrar vatnsskömmtunar og bjargaði sú ákvörðun ugglaust lífi þeirra sem á flekann komust. En hver mannanna fékk einungis einn desílítra vatns á sólarhring.
Aðeins var eftir vatn til tveggja sólarhringa þegar breskt herskip sá ljósmerki frá flekanum, aðfaranótt 10. júlí. Herskipið bjargaði mönnunum sjö sem allir voru þrekaðir eftir mannraunina. Einn skipbrotsmannanna var það langt leiddur að hann lést fimm dögum eftir að herskipið bjargaði þeim af flekanum.
Skjóta fyrst og spyrja svo
Einskipa gátu kaupskipin okkar tæpast verið í siglingum, afdrif Heklu undirstrikuðu það. Íslensku skipin voru reyndar ekki feitur biti fyrir Þjóðverja en á stríðstímum þykir betra að skjóta áður en vissa er fengin hvort um óvin sé að ræða eða ekki því bandamenn, rétt eins og Þjóðverjar áttu það til að dulbúa djúpsprengjubúin kafbátaleitarskip sín sem saklausa togara eða kaupskip hlutlausra þjóða.
Það varð því úr að bandamenn ákváðu að veita íslenskum skipum vernd yfir hafið. Alla jafna var siglt í tveimur áföngum. Hinn fyrri var til Bretlands, yfirleitt til Skotlands, þar sem slegist var í för með stærri skipalest yfir til Bandaríkjanna.
Magnús Þorsteinsson, síðar skipstjóri, sigldi öll stríðsárin á Goðafossi og hann tók þátt í fyrstu skipalestinni þar sem íslensk skip sigldu undir verndarvopnum bandamanna.
Sáum kafbátinn í tunglsljósinu
„Mér er sérlega minnisstætt þegar þrjú stór olíuskip voru skotin niður á tíu mínútum fyrir framan augun á okkur og reyndar tel ég mig hafa séð kafbátinn renna sér fram hjá okkur og fram eftir skipalestinni. Það var að nóttu til, í fullu tungli og glampandi tunglskini að ég var á bátadekkinu ásamt fleiri skipverjum, þegar við þóttumst sjá sjónpípu kafbáts rétt við hliðina á okkur. Við gátum lítið gert, ekki var hægt að setja upp merkjaflögg í myrkrinu og breyta um stefnu, það var því ekki um annað að ræða fyrir skipalestina en að sigla áfram og vona það besta.“
Hvernig tilfinning er að vita af kafbát innan um skipin og geta ekkert gert til að losna við hann? Biðuð þið einungis eftir því að verða skotnir niður?
„Tilfinningin er illskýranleg Við vorum nýbúnir að fá björgunargalla, samfestinga með stígvélum og voru gallarnir uppreimaðir og með ljósi og flautu til að vekja á sér athygli í sjónum. Gallarnir voru ákaflega klossaðir og verulega erfitt að hreyfa sig í þeim. Í hreinskilni sagt held ég að ófáir hafi hreinlega sokkið í þeim.
En klæddir göllunum biðum við, en ekki eftir því að verða skotnir niður. Kafbáturinn hafði áður færi á okkur en hélt áfram, greinilega til að skjóta á önnur stærri og mikilvægari skip. Enda leið ekki langur tími þangað til fyrsta skipið fór og það var olíuskip.“
Afturhlutinn flaut logandi fram hjá okkur
„Við vorum á leiðinni vestur og olíuskipin voru því tóm en fyrir vikið varð sprengingin meiri. Skipið varð alelda og sprengingin slík að flest skipin í lestinni fundu fyrir henni og á næstu tíu mínútum fóru tvö olíuskip til viðbótar niður og afturhluti eins þeirra flaut logandi aftur með lestinni, fram hjá Goðafossi. Það er nánast ógerningur að lýsa líðaninni meðan á öllu þessu stóð. Fyrir það fyrsta var ég nánast unglingur á þessum tíma og þótti mér stríðið spennandi í aðra röndina, því er ekki að leyna. En á stundum sem þessari var maður óneitanlega minntur á stríðið og það sem allt eins gat komið fyrir okkur. Við ungu og ólofuðu mennirnir áttum auðveldara með að skilja alvöruna og áhyggjusvipinn sem greiptur var í andlit fjölskyldumannanna um borð. Við sáum hvernig eitt tundurskeyti gat farið með stærri og sterkari skip en Goðafoss og vissum að ekki var spurt að leikslokum yrðum við hæfðir, það var ljóst.“
Meira má lesa um siglingar Íslendinga á stríðsárunum í jólablaði Fiskifrétta sem kom út 18. desember 1987.