Ekki hefur ennþá verið tilkynnt hvernig íslenska kvótanum í Barentshafi verður skipt enda verður ekki gengið formlega frá samningnum fyrr en 22. mars nk. Fiskifréttir hafa tekið sér það bessaleyfi að spá í spilin og áætla skipunum kvóta í samræmi við ákvæði úthafsveiðilaganna.

Í lögunum segir að tekið skuli mið af meðaltali þriggja bestu veiðiára skipanna þegar hlutfall þeirra í heildarkvóta sé ákveðið. Auk þess er sjávarútvegsráðherra heimilt að verðlauna frumherjana í veiðum sem þessum með því að ráðstafa allt að 5% heildarkvótans sérstaklega til þeirra skipa sem hófu veiðarnar. Ekki er ljóst í þessu tilfelli hvort ráðherrann velur að taka frá 5% eða eitthvað minna í þessu skyni. Þá er heldur ekki vitað hvort hanntekur eitt eða fleiri ár til viðmiðunar við útreikning á frumherjarétti.

„Kvótaúthlutun“ Fiskifrétta

Í meðfylgjandi útreikningi Fiskifrétta er miðað við 5% frumherjarétt og að aðeins fyrsta árið gildi sem tími frumherjanna. Það ár fóru um 40 skip til veiðanna og má með nokkrum sanni segja að þau hafi verið frumherjarnir, en þau veiddu 9.700 tonn.

Árið eftir fór megnið af togaraflotanum af stað eða yfir 60 skip og fiskuðu þau 37 þúsund tonn. Frumherjabónusinn í okkar dæmi er 445 tonn sem skiptist milli skipanna fjörutíu á þann veg sem sýnt er í aftasta dálki töflunnar. Bónusinn er jafnframt innifalinn í kvótatölunni fyrir hvert skip sem birtist í næstaftasta dálki.

Líta ber á þessa „kvótathlutun“ Fiskifrétta sem iðleitni til þess að nálgast það hvernig kvótanum verði skipt miðað við áðurnefndar forsendur. Ómögulegt er að segja hvaða leið ráðuneytið fer innan ramma laganna, auk þess sem til eru lagaákvæði sem gera ráð fyrir að þeir sem þiggi úthafskvóta skili einhverjum kvóta í staðinn til skipa innan lögsögunnar. Það var t.d. gert þegar úthafskarfakvótanum var úthlutað á sínum tíma.

Þá má nefna, að línuútgerðarmenn sjá enga sanngirni í því að stjórnvöld bjóði veiðiheimildir á þéttsetnum línumiðum við Ísland sem borgun fyrir það að íslenskir togarar geti veitt í Barentshafi, eins og fram kemur hér annars staðar í blaðinu.

Samherji með mest

Sé litið á einstakar útgerðir fær Samherji mestan kvóta eða 714 tonn miðað við áðurnefndar forsendur okkar. Það er vegna skipanna Akureyrinnar, Baldvins  Þorsteinssonar, Þorsteins, Margrétar, Víðis og Oddeyrinnar.

Næst mestan kvóta hefur Þormóður rammi – Sæberg eða 707 tonn vegna Mánabergs, Múlabergs, Sólbergs, Sigurbjargar og Stálvíkur.

Þriðja mesta kvótann samkvæmt þessu fær Fiskiðjan Skagfirðingur eða 643 tonn vegna Málmeyjar, Hegraness, Skagfirðings og Klakks.

Fjórða hæsta útgerðin er svo Grandi með 492 tonn vegna Snorra Sturlusonar, Örfiriseyjar, Engeyjar, Þemeyjar, Akureyjar og Viðeyjar.

Eins og sést af þessu kemur ekki ýkja mikið í hlut jafnvel stærstu kvótahafanna. Þetta nálgast að vera fullfermistúr fyrir einn frystitogara hjá hverju fyrirtæki. Alls 90 skip tóku þátt í Smuguveiðunum á því sex ára tímabili sem þær stóðu yfir. Eins og sést á meðfylgjandi töflu riðu þau ekki öll feitum hesti frá þessu ævintýri. Miðað við 8.900 tonna kvótann á þessu ári fær yfir helmingur skipanna minna en 100 tonn hvert, samkvæmt forsendum okkar og mörg þeirra aðeins örfá tonn. Það er því ljóst að þegar að veiðunum kemur verður mikið um kvótaframsal milli skipa.

Aðeins eitt skip, Stakfell ÞH, kemst yfir 300 tonna kvóta og 12 skip eru með yfir 200 tonna kvóta hvert. Kvóti Íslendinga miðast við 1,86% af heildarkvótanum í Barentshafi. Þessi prósentutala er þannig til komin, að þegar umræður um Smugudeiluna stóðu sem hæst fyrir nokkrum árum var Íslendingum boðinn 13.000 tonna kvóti. Hann jafngilti 1,86% af þáverandi heildarþorskkvóta í Barentshafi. Nái þorskstofninn sér á strik á næstu árum eykst kvóti okkar hlutfallslega en dragist hann saman mun kvótinn minnka.

Enn er ekki á hreinu hvort eitthvert lágmark verði sett eða ekki. Enn fremur á eftir að ganga frá línu- og loðnuveiðiheimildum Norðmanna við Ísland og kolmunna- og makrílheimildum Rússa hér.

Meðan óvissa ríkir um þetta er erfitt að leggja mat á ávinning Íslendinga af samningnum, en Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hefur sagt að meira en helminginn af veiðiheimildunum, sem komi í hlut Íslendinga, fái þeir án gagngjalds.