Þá er í athugun að stofna til togararalls að haustlagi hliðstætt því sem gert er á hverju vori. Af öðrum nýjungum má nefna umfangsmikla hvalatalningu, rannsóknir á dægursveiflu úthafskarfans, sérstakar flatfiskarannsóknir og merkingar, könnun á fæðu sjófugla og margt fleira.
Rannsóknirnar á norsk-ís-lenska síldarstofninum fara þannig fram að rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson fer tvívegis í vistfræðirannsóknir á slóðir síldarinnar djúpt austur og norðaustur af landinu í aprílmánuði og fram í maí, og síðan kannar r.s. Árni Friðriksson útbreiðslu og fæðu síldarinnar í maímánuði og aftur í júní.
Kanna dægursvæflu úthafskarfa
Þótt Hafrannsóknastofnun hafi fylgst með svæðinu í vorleiðangrum og ungfiskaleiðangrum sínum á undanförnum árum hefur það ekki verið gert með eins skipulegum hætti og nú er ákveðið, að sögn Guðna Þorsteinssonar fiskifræðings.
Önnur nýjung á rannsóknaáætlun Hafrannsóknastofnunar er könnun á dægursveiflu úthafskarfans á Reykjaneshrygg, en niðurstöðurnar verða notaðar til leiðréttingar á bergmálsmælingum á stofninum.
Úthafskarfinn hagar sér þannig að hann þéttir sig í torfur á daginn og er þá veiðanlegur, en á nóttunni er hann dreifður og óveiðanlegur.
Nýtt togararall?
Hafrannsóknastofnun hefur mikinn áhuga á því að efna til togararalls (stofnmælingar) á haustin hliðstætt rallinu sem farið er á vorin. Á rannsóknaáætlun fyrir þetta ár er gert ráð fyrir haustralli á Bjarna Sæmundssyni frá 25. september til 20. október, en það er þó háð því að sérstök fjárveiting fáist því taka þyrfti togara á leigu til verkefnisins.
„Við erum að tala um nýtt togararall að hausti til, sérstaklega sniðið fyrir karfa og grálúðu en einnig þorsk. Það yrði minna í sniðum en togararallið að vorinu og að hluta til á öðrum svæðum,“ sagði Guðni.
Hvalatalning á öllu Norður-Atlantshafi
Í sumar verður farið í hvalatalningu á r.s. Árna Friðrikssyni auk leiguskipa. Þetta er liður í umfangsmikilli hvalatalningu á öllu Norður-Atlantshafi en allmörg ár eru frá því að talning á hvölum fór fram hér við land síðast. Talningin er fjármögnuð erlendis frá.
„Fæða sjófugla“ er eitt verkefna r.s. Drafnar næsta sumar, en það felst í því að skjóta sjófugla, rannsaka magainnihald þeirra og reyna að gera sér grein fyrir því hversu mikið þeir éta af fiski út frá áætlaðri stofnstærð og meltingarhraða.
Flatfiskamerkingar
Af öðrum verkefnum má nefna að nú verður í fyrsta sinn í langan tíma farið í sérstakan flatfiskaleiðangur. Er m.a. ætlunin að merkja flatfisktegundir sem ekki hafa áður verið merktar. Þá eru bæði ígulkerarannsóknir og kræklingarannsóknir á dagskrá.
Hér á undan hefur verið getið nokkurra verkefna á skipaáætlun Hafrannsóknastofnunar á þessu ári sem til nýjunga geta talist, en megináherslan verður eftir sem áður lögð á hefðbundin verkefni svo sem mælingar á vexti og viðgangi helstu nytjastofna, umfangsmiklar hrygningarrannsóknir og þorskmerkingar, vistfræðirannsóknir og veiðarfærarannsóknir.
Hvað síðastnefnda þáttinn varðar þá eru fyrirhugaðar ýmsar rannsóknir á kjörhæfni veiðarfæra, svo sem tilraunir með smáfiskaskilju, leggpoka, styttri pokalínu og fleira.