„Það mokaðist svo ört inn í trollið að það fylltist á örskömmum tíma. Ég hélt að þetta gæti ekki gerst og menn segja mér að þeir viti ekki dæmi þess að svona stór hol hafi fengist áður. Við náðum að hífa trollið upp í sjó en strax og við byrjuðum að draga slitnaði pokinn og belgurinn aftan úr trollinu og það steinsökk allt saman. Við sátum eftir með sárt ennið og erum ekki búnir að jafna okkur ennþá.“
Þetta sagði Hlöðver Haraldsson, skipstjóri á frystitogaranum Hólmadrangi ST, í samtali við Fiskifréttir en Hólmadrangur fékk á dögunum risahol á rækjumiðunum austan við Dohrnbankann.
Of mikið af því góða
Þarna hefur floti íslenskra skipa verið að veiðum að undanförnu og hefur aflinn verið mjög góður. Stærstu holin hafa yfirleitt verið um það bil tíu tonn en það þykir í raun of mikið af því góða. Þess eru dæmi að íslensk rækjuskip hafi fengið upp í 15 til 16 tonn í einu og sama holinu en Hlöðver staðhæfir að hátt í 30 tonn afrækju hafi verið í trollinu þegar það gaf sig undan ofurþunganum.
„Við vorum nýbúnir að vinna fjögurra tonna hol og hugmyndin var sú að draga í fimm tíma ef ekkert kæmi upp á. Við vorum búnir að draga í þrjá og hálfan tíma þegar rækjan fór að mokast inn í trollið fyrir alvöru. Um leið fór hitamælirinn að titra duglega en rækjan virðist aðallega sækja í nokkuð skörp hitaskil. Við erum með tvo aflanema og þegar sá fyrri gefur merki er venjulega komið u.þ.b. eitt tonn af rækju í trollið. Sá seinni gefur merki þegar tvö til þrjú tonn eru komin í trollið. Ljósin, sem gefa aflamagnið til kynna, hurfu bæði í skamman tíma og komu svo inn aftur og ég dró þær ályktanir að allt væri með felldu. Við áttuðum okkur þó fljótlega á því að ekki væri allt með felldu en það varð ekki við neitt ráðið,“ sagði Hlöðver.
Eins og að missa stóra laxinn
„Rækjan hefur mokast inn í trollið með ævintýralegum hætti og á örskömmum tíma. Við vorum með trollið uppi í sjó í um tvo tíma og hugmyndin var sú að reyna að ná því að, skera á það og reyna að bjarga tíu til tólf tonnum. Þegar við byrjuðum að draga sprakk allt og við misstum pokann, aflanemana og hólkinn og það sem var mest um vert, alla þessa gullfallegu rækju,“ sagði Hlöðver en það var ekki laust við að honum liði eins og laxveiðimanni sem misst hefði þann stóra eftir æsilega baráttu.
Þess má geta að Hólmadrangur fékk sendan nýjan poka út á miðin og tvisvar eftir þetta ævintýri fengust tíu tonna hol. Alls varð aflinn um 130 tonn af frystri rækju að verðmæti um 41 milljón króna. Búnir að styrkja trollið Hólmadrangur hefur jafnan verið af og til á rækju á undanförnum árum en Hlöðver sagði aflabrögðin nú taka öllum fyrri túrum fram.
„Þessar veiðar eins og við upplifðum þær eru hreint ævintýri og vonandi opnar þetta augu manna fyrir þeim möguleikum sem þarna eru. Það þarf að útbúa skipin betur og við erum búnir að styrkja trollið. Ég get ekki beðið eftir því að komast aftur á miðin á þessar „gullmolaveiðar“, sagði Hlöðver Haraldsson að lokum.