Ekki hefur þurft að kvarta undan leyfilegu aflamagni á vertíðinni enda voru íslensk skip búin að veiða um tæplega 900 þúsund tonn í heild frá því síðastliðið sumar og þar til í byrjun þessarar viku.
Því til viðbótar hafa erlend veiðiskip landað hérlendis 150 þúsund tonnum, þannig að alls hafa 1.050 þús. tonn komið á land. Það er svipað magn og á vertíðinni á undan.
Eigi að síður hefur verðmæti aflans minnkað um nálægt sex milljarða króna milli vertíða eða úr 17 milljörðum í 11 milljarða, samkvæmt útreikningum Fiskifrétta.
Þetta kemur heim og saman við fyrri áætlun Fiskifrétta um verðmæti loðnuafurða vertíðarinnar, sem birt var hér í blaðinu 26. febrúar síðastliðinn, þótt innbyrðis hlutfall milli bræðslu- og vinnsluloðnu hafi tekið nokkrum breytingum frá því sem við spáðum fyrir mánuði.
Nú er útlit fyrir að verðmæti mjöls og lýsis verði ekki nema um 10 milljarðar króna í stað 14 milljarða á vertíðinni á undan. Verðmæti frystrar loðnu og loðnuhrogna mun væntanlega skila vel innan við einn milljarði króna að þessu sinni á móti tæpum þremur milljörðum á vertíðinni 1997/98.
Rétt er að taka fram að verðmæti bræðsluafurðanna í þessum útreikningi miðast við cif-verð en verðmæti vinnsluloðnunnar við fob-verðmæti. Þetta á við um báðar vertíðarnar þannig að samanburðurinn er raunhæfur.
Mjöl og lýsi
Reginmunur er á verði bræðsluafurðanna á sumar- og haustvertíð samanborið við vetrarvertíðina. Landaður afli úr íslenskum og erlendum loðnuskipum á sumar- og haustvertíðinni nam liðlega 400 þús. tonnum. Miðað við 450 sterlingspunda meðalverð á mjöltonninu þá nam verðmæti loðnumjölsins 3,6 milljörðum króna fyrir áramót.
Áætluð framleiðsla á lýsi var um 50 þús. tonn en þar af tókst aðeins að selja um 30 þús. tonn. Miðað við 750 dollara meðalverð fyrir lýsistonnið nam verðmæti selds loðnulýsis 1,6 milljörðum króna. Sumar- og haustvertíðin skilaði þannig 5,2 milljörðum króna, samkvæmt þessum útreikningum.
Útlit er fyrir að landað verði um 650 þús. tonnum af loðnu á vetrarvertíðinni (þ.e. frá áramótum), þar af komu 37 þús. tonn af erlendum loðnuskipum. Sé miðað við að úr þessu magni fáist 110 þús. tonn af mjöli og mjöltonnið seljist á 305 sterlingspund, skilar mjölið 3,9 milljörðum króna. Lýsi úr þessum afla er áætlað 25 þús. tonn. Þar við bætast 20 þús. tonn sem óseld voru frá sumar- og haustvertíðinni. Séu þessi 45 þús. lýsistonn seld á 300 dollara tonnið nemur verðmæti þessa lýsis tæpum einum milljarði króna.
Samtals gefa bræðsluafurðirnar því af sér tæpan fimm milljarð króna á vetrarvertíð og alls 10 milljarða króna á heildarvertíðinni frá sumri 1998 til vors 1999.
Fryst loðna
Frysting á loðnu og loðnuhrognum á þessari vertíð hefur valdið miklum vonbrigðum. Þeir sem eiga mikið undir þessari vinnslu sitja eftir með sárt ennið. Frysting á loðnu fyrir Japansmarkað var innan við þriðjungur af því sem hún var á vertíðinni í fyrra og verðmæti hvers kílós dróst verulega saman vegna þess hve loðnan var smá.
Þá var frysting á svonefndri Rússaloðnu óveruleg að þessu sinni vegna kreppunnar í Rússlandi en þessi vinnsla var mikil búbót á síðustu vertíð. Eftir því sem næst verður komist voru ekki fryst nema 7.600 tonn af loðnu fyrir Japansmarkað í ár. Endanlegt verð liggur ekki fyrir en ef miðað er við 43 kr./kg hefur hún skilað um 330 milljónum króna.
Þessu til viðbótar hafa verið fryst um 2.000 tonn af rússaloðnu, sem er að hluta til óseld.
Ef gengið er út frá því að rússaloðnan sé helmingi verðminni en Japansloðnan er sú framleiðsla að verðmæti um 40 milljónir króna. Alls nemur verðmæti frystu loðnunnar því um 370 milljónum króna í ár.
Til samanburðar má nefna að í fyrra voru fryst um 20.000 tonn af Japansloðnu að verðmæti um 1,2 milljarðar króna og að auki um 50.000 tonn af Rússaloðnu fyrir 1,4 milljarða króna, — eða samtals um tveir og hálfur milljarður króna.
Loðnuhrogn
Eftir því sem næst verður komist voru fryst nálægt 3.500-4.000 tonn af loðnuhrognum á þessari vertíð. Ekki hefur ennþá verið gengið frá samningum um verð fyrir hrognin. Sé miðað er við 150 kr./kg, sem er nálægt meðalverðinu í fyrra, munu hrognin skila samtals um 400 milljónum króna. Á síðasta ári voru fryst 1.900 tonn af hrognum á Japansmarkað að verðmæti 290 milljónir króna.