Við sem störfum í sjávarútvegi horfum fram á enn eitt erfiðleikaárið í atvinnugreininni. Gengi krónunnar verður að líkindum hátt áfram, veiði hefur verið treg í mörgum tegundum og nægir þar að nefna rækju, kolmunna, loðnu og karfa, bæði í úthafinu og innan lögsögunnar. Olíuverð er hátt og fátt bendir til að það lækki. Huggun harmi gegn er að afurðaverð í flestum tegundum er hátt en það skilar sér illa í kassann vegna hágengis krónunnar. Þannig er nú staðan en vonandi sjáum við breytingar til batnaðar á næstunni.

Veiðigjald og veiðiskylda

Í kjölfar nýlegrar skýrslu um bágt ástand rækjuveiða lagði sjávarútvegsráðherra fram frumvarp um afnám lagaákvæðis um ,,að vannýting á úthlutuðum aflaheimildum í úthafsrækju leiði ekki til þess að skip missi aflahlutdeild sína í úthafsrækju eða öðrum tegundum“ og að ,,veiðigjald fyrir úthafsrækju verði greitt eftir á miðað við landaðan úthafsrækjuafla í lok fiskveiðiárs næstu þrjú árin, en ekki innheimt í upphafi fiskveiðiárs miðað við úthlutað aflamark“.

Lagabreyting í þessa veru, eða eigum við frekar að tala um aðlögun að raunveruleikanum, sýnir glögglega hversu galin lög um sjávarútveg eru. Þau eru ekki sanngjörn og almenn, heldur ósanngjörn og sértæk. Þess vegna er nauðsynlegt og sanngjarnt að veita frá þeim undanþágu – aftur og aftur.

Á fiskveiðiárinu 2004/2005 var ástandið þannig að umtalsverðar veiðiheimildir í loðnu, kolmunna, úthafskarfa, rækju á Flæmingjagrunni og úthafsrækju voru ekki nýttar, auk þess sem smábátar misstu niður talsvert af heimildum í steinbít og ufsa. Fyrir hvert kíló er greitt veiðigjald, líka fyrir þann fisk sem ekki tekst að veiða, jafn sanngjarnt og það nú er. Ég leyfi mér að fullyrða að flest fyrirtæki, sem stunduðu veiðar og vinnslu framangreindra tegunda, eru rekin með tapi. Sama á raunar við um veiðar og vinnslu annarra tegunda þar sem veitt var upp í heimildir.

En þrátt fyrir raunverulegan taprekstur má samt ætla að flest sjávarútvegsfyrirtækin skili hagnaði á síðasta ári vegna gengishagnaðar erlendra skulda. Og merkilegt nokk: Fyrirtækin sýna meiri hagnað eftir því sem þau skulda meira! Reksturinn skilar hins vegar ekki afgangi til að standa undir vöxtum og afborgunum lána. Ofan á allt þetta þarf svo sjávarútvegurinn að greiða skatt af gengishagnaði.

Um þessa sérkennilegu stöðu fjallaði Óskar Garðarsson, fjármálastjóri Eskju, í afar athyglisverðu erindi á aðalfundi SF í Hveradölum síðastliðið haust.

Í dag er líklegt að hluti loðnuflotans verði bundinn við bryggju mestan hluta yfirstandandi árs. Þar stefnir því í að veiðiskyldan muni valda mönnum vandræðum því á skipunum eru oftar en ekki aflaheimildir annarra tegunda en uppsjávarfiska. Í því ljósi er ekki ólíklegt að enn og aftur þurfi að breyta lögum sem þrengja að sjávarútveginum – sem sýnir hversu vitlaus lögin eru í reynd.

Raforka og fiskur

Svo er það veiðigjaldið. Víkkum nú sjóndeildarhringinn sem snöggvast að gefnu tilefni og nefnum til sögunnar vatnsafl og rafmagn. Auðlindanefndin svokallaða sagði á sínum tíma í áliti sínu:

„Í samræmi við almenna stefnumótun nefndarinnar telur hún að tryggja þurfi að þjóðin njóti í framtíðinni eðlilegrar hlutdeildar í þeim umframarði sem nýting vatnsafls í eigu þjóðarinnar skapar.“

Þarna er vísað til þess að sanngjarnt sé að orkufyrirtæki landsins hefji greiðslu auðlindagjalds, sambærilegt veiðigjaldi sjávarútvegsins. Orkufyrirtækin greiddu áratugum saman ekki einu sinni tekjuskatt, hvað þá að á þau væru lagt auðlindagjald af einhverju tagi. Með nýjum raforkulögum fengu þau meira að segja nokkurra ára aðlögunartíma til að búa sig undir að borga skatta og skyldur eins og aðrir!

Ríkið og Reykjavíkurborg eru eigendur stærstu orkufyrirtækjanna í landinu. Nú keppast fyrirtækin þeirra við í gríðarlegri uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Þessi uppbygging, ásamt öðrum þáttum að vísu, er á góðri leið með að ryðja úr vegi og leggja í rúst alla framleiðslu í landinu, þar með talinn sjávarútveginn. Það fer hins vegar lítið fyrir umræðu þess efnis að sanngjarnt sé og sjálfsagt að leggja auðlindagjald á raforku (hliðstætt veiðigjaldi í sjávarútvegi).

Auðlindagjald, eða yfirlýsing um að það verði lagt á, myndi að sjálfsögðu leiða til þess að orkufyrirtækin þyrftu að hækka rafmagnsverðið eða boða slíkar hækkarnir í framtíðinni. Slíkt myndi svo aftur leiða til minni eftirspurnar. Og vel að merkja: Getur hugsast að linnulaus ásókn erlendra fyrirtækja í raforku á íslandi stafi af óeðlilega lágu raforkuverði sem þeim býðst hér?

Það sitja ekki allir við sama borð

Samanburður við raforku og stóriðju verður óneitanlega áleitinn þegar við blasir að sjávarvegsfyrirtækin verða, takk fyrir, að snara út veiðigjaldi upp á hundruð milljóna króna þrátt fyrir raunverulegt rekstrartap og bullandi vandræði. Á sama tíma fá orkufyrirtækin úthlutað sérstakri aðlögun til að borga skatta til samfélagsins!

Fiskifréttir 10. febrúar.
Fiskifréttir 10. febrúar.

Hvar er nú réttlætið? Hvar er nú Morgunblaðið sem krafðist sérskatta á sjávarútveginn í nafni réttlætis? Veiðigjaldið, þessi makalausa skattheimta, var nefnilega öðrum þræði sáttagjörð stjórnvalda við Morgunblaðið í sjávarútvegsmálum. Maður skyldi ætla að ritstjórar þar á bæ hefðu fengið þann byr í segl sem dygði til að heimta að eitt skyldi nú yfir allar auðlindir ganga. En nú ber svo við að ekki heyrast hljóð úr horni. Séu stjórnendur Morgunblaðsins á annað borð þeirrar skoðunar að leggja beri auðlindagjald á orkufyrirtækin þá er af sem áður var þegar þeir beittu fjölmiðli sínum af hörku og óbilgirni til stuðnings veiðigjaldi á sjávarútveginn. Það á greinilega ekki sama við um Jón og séra Jón.

Skýrt skal tekið fram, svo engum misskilningi valdi, að ég er hér ekki að nota veiðigjald sem röksemd fyrir auðlindagjaldi á raforku en bendi á að hér sitja fyrirtæki hreint ekki við sama borð. Er ekki annars rétt að þeir, sem lifa af veiðum og vinnslu sjávarfangs og íbúar þeirra byggða sem mest eiga undir, snúi nú bökum saman og berjist fyrir því að veiðigjaldið verði afnumið? Tvennar kosningar fara í hönd og þá er lag að láta á reyna.