Jón Sólmundsson telur leiðangurinn hafa heppnast mjög vel. Leiðangursmenn hafi verið þarna í logni og mjög góðu veðri. Þeir hafi þó verið í svarta þoku í 8 til 9 gráðu hita innan um borgarísjaka á meðan hitabylgja gekk yfir landið með 25 til 30 gráðu hita.
Sjö vísindamenn Hafrannsóknastofnunar tóku þátt í leiðangrinum auk áhafnar Bjarna Sæmundssonar. Auk leiðangursstjórnar stýrði Jón fiskirannsóknum á svæðinu. Stefán Aki Ragnarsson stjórnaði hins vegar botndýrarannsóknum.
Skoðuðu áhrif friðunar
Stefán tók mikið af ljósmyndum af lífríkinu á hafsbotni auk þess sem botndýrum innan friðunarsvæðis og á nærliggjandi togslóð var safnað með ýmsum sýnatökutækjum, s.s. sleðum og botngreip. Sleðar sem dregnir eru eftir skipinu, voru notaðir til að safna þeim lífverum sem lifa á botninum en botngreip þeim lífverum sem í setinu þrífast.
„Markmiðið með þessu hjá okkur var að skoða áhrif friðunaraðgerða á botndýr og fiska innan þessa hólfs. Það gerum við með því að rannsaka lífríki botnsins inni á svæðinu og bera saman við lífríkið á togslóð utan þess,“ sagði Jón.
Heildarniðurstöður ekki liggja fyrir, en fyrir höndum er mikil vinna við greiningu og flokkun á sýnum úr leiðangrinum sem verður að mestu framkvæmd í rannsóknarstöðinni í Sandgerði. Jón sagðist því ekki geta úttalað sig um hvort svæðin sýndu merkjanlegan mun eða bata eftir um 11 ára friðun miðað við svæðin þar utan við, þar sem veiðar hafa farið fram um áratuga skeið. Stærri botndýr svo sem svampar virtust þó vera meira áberandi innan friðunarsvæðisins.
Mikið af síli vakti athygli
Jón sagði að auk hefðbundinna mælinga á fiskum hafi verið skoðað innihald fiskmaga allra tegunda sem fengust. Sagði hann það hafa vakið sérstaka athygli hversu áberandi sandsíli var í maga þorsksins. Þótti það sérstakt miðað við hversu norðarlega og djúpt þetta svæði liggur. Fyrir ekki svo löngu síðan hefði fremur mátt búast við að finna mikið af loðnu en síli, en greinilegt sé að aðstæður í hafinu séu breyttar frá því sem áður hefur verið.
Jón segist telja þetta óvenjulegt því miðin úti fyrir Norðurlandi hafi hingað til einkennst meira af loðnu en síli, bæði í fæðu fiska og fugla. Síli hafi til þessa einkum verið við Suður- og Vesturland og á grunnslóð á einstökum svæðum norðanlands og austan. Inni á friðaða svæðinu urðu leiðangursmenn einnig varir við mikið af ýsu af öllum stærðum.
Afrán þorsksins
„Þá sáum við líka töluvert af örsmáum þorskseiðum í maga þorsks og fleiri tegunda. Það er reyndar sá árstími núna sem yngstu seiðin eru rétt að færa sig úr svifinu og setjast til botns og kunna þá að vera auðveld bráð,“ segir Jón og bætir því við að erfitt sé að meta hvort slíkt afrán þorsksins á eigin stofni sé eðlilegt ástand eða ekki, þar sem samanburðarrannsóknir skorti á þessum árstíma. Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafi aftur á móti gert mikið af því að skoða í þorskmaga í mars og í leiðöngrum í júní og jafnvel fram í júlí. Þá hafi einnig verið skoðað í þorskmaga í haustralli, en lítið í ágúst.
Prófuðu ný merki
Auk þessa merktu leiðangursmenn rúmlega 2.000 þorska bæði innan og utan friðaða svæðisins. Um tvenns konar merki var að ræða, hefðbundin bakuggamerki og síðan sérstök ný kviðarholsmerki úr plasti. Þessi merki eru rauð að lit og eru á að líta eins og stuttur bandspotti á kvið fiskanna.
Sagði Jón að þeir hefðu viljað prófa hvort þessa gerð merkja héldust betur á fiskinum en þau sem áður hafa verið notuð. Jafnframt gætu merkin gefið upplýsingar um tap hefðbundinna merkja.
Höfuðmarkmiðið með þessum merkingum er þó að sögn Jóns að afla upplýsinga um hvað verði um þann þorsk sem nýtur friðunar á svæðinu – hvort hann leitar eitthvað út fyrir svæðið og þá hvert. Vert er að benda sjómönnum á að hafa vakandi auga með því ef þorskur með slíkum merkjum skilar sér í veiðarfærin.