Þá vega nokkrar tegundir þungt í afla íslenskra skipa sem ekki var hirt um að veiða hér á árum áður svo sem loðna og kolmunni. Smám saman var farið að nýta fleiri tegundir á síðustu öld og nú er svo komið að áður vannýttar tegundir eru um 30% af aflaverðmæti íslenskra fiskiskipa miðað við árið 2005, eða rúmir 20 milljarðar króna af 68 milljarða aflaverðmæti þess árs.

Fiskifréttir 12. janúar 2007.
Fiskifréttir 12. janúar 2007.

Fyrst skal frægan telja í þessum hópi karfann sem sjómenn blótuðu mikið hér á árum  áður þegar hann slæddist með í trollið á botnfiskveiðum. Honum var umsvifalaust hent og áttu sjómenn jafnvel sérstaklega styrkt stígvél til að geta sparkað karfanum í sjóinn án þess að eiga á hættu að skaða sig á hvössum broddum hans.

Á fjórða áratug síðustu aldar var karfanum um tíma mokað upp í gúanó. Gúanóveiðarnar á karfa voru reyndar aftur í byrjun 6. áratugarins. Um tíma var siglt með karfa á hafnir í Þýskalandi en reglubundnar veiðar á honum hófust ekki fyrr en á 6. áratugnum þegar markaðir opnuðust erlendis fyrir frystan karfa.

Árið 2005 nam aflaverðmæti karfa á Íslandsmiðum um 5,5 milljörðum króna og úthafskarfa 1,7 milljörðum, samanlagt 7,2 milljörðum, eða um 10% af aflaverðmæti ársins 2005.

Uppsjávartegundir mikilvægar

Íslendingar hófu ekki að veiða loðnu fyrr en á sjöunda áratug síðustu aldar og kraftur komst í veiðarnar þegar síldveiðar fyrir norðan land hrundu. Loðnuaflinn var oft umtalsverður og fór upp í 1.081 þúsund tonn árið 2002. Á árinu 2005 veiddu Íslendingar tæp 600 þúsund tonn af loðnu. Aflaverðmæti loðnu og loðnuhrogna það ár var samanlagt um 5,5 milljarðar króna, eða um 7% af aflaverðmæti ársins 2005.

Kolmunnaveiðar Íslendinga hófust á áttunda áratugnum og stóðu þær veiðar yfir í um 10 ár. Þær hófust svo aftur eftir nokkurt hlé árið 1977. Mest veiddu íslensk skip um 500 þúsund tonn af kolmunna árið 2003. Árið 2005 nam veiðin 265 þúsund tonnum og aflaverðmæti kolmunnaskipa var þá um 1,5 milljarðar króna.

Áður vannýttur koli skilar 870 milljónum

Flestar kolategundir fyrir utan skarkolann voru vannýttar lengst af á síðustu öld. Þó var þykkvalúran eitthvað nýtt og veidd sérstaklega hér á árum áður, aðallega á stríðsárunum og lengur. Einnig var langlúran lítillega nýtt.

Sérstakar veiðar á þykkvalúru duttu síðan niður að mestu og hófust ekki aftur fyrr en löngu seinna. Sandkola og skrápflúru var hins vegar hent eins og hverju öðru rusli allt þar til farið var almennt að nýta flestar kolategundir á 9. áratugnum. Aflaverðmæti þeirra kolategunda, sem ekki voru nýttar að neinu ráði lengst af á síðustu öld, var um 870 milljónir króna á árinu 2005.

Byrjað að nýta rækjumið á djúpslóð á áttunda áratugnum

Veiðar á innfjarðarrækju hófust árið 1935 en voru litlar fyrst framan af. Á áttunda áratugnum var farið að nýta rækjumið á djúpslóð. Um tíma voru rækjuveiðar Íslendinga umtalsverðar en á seinni árum hafa þær dregist saman og eru nú nánast engar orðnar. Aflaverðmæti rækju nam þó um 870 milljónum króna á árinu 2005.

Eins og fram kom í síðasta jólablaði Fiskifrétta fóru Íslendingar ekki að nýta humar svo nokkru nemi fyrr en upp úr 1950 og á árunum 1958-1960 var farið að veiða humarinn yfirleitt á flest öllum veiðisvæðum. Á árinu 2005 var aflaverðmæti hjá humarskipum um 580 milljónir króna.

Grálúðan verðmæt

Á Íslandsmiðum hófust grálúðuveiðar um 1960 og voru útlendingar einir um þessa auðlind fyrstu árin. Veiðar Íslendinga voru takmarkaðar allt til ársins 1977 þegar aflinn varð um 10 þúsund tonn. Hann náði hámarki árið 1989, varð alls 59.200 tonn, nær allur veiddur af Íslendingum. Grálúðuafli Íslendinga nam um 13 þúsund tonnum árið 2005 og var aflaverðmætið um 3 milljarðar króna, eða um 4,5% af heildaraflaverðmæti ársins.

Skötuselurinn er enn eitt dæmið um verðmætan fisk í dag sem var hent fyrir borð á fyrri hluta síðustu aldar. Síðan var farið að hirða skötusel sem meðafla. Frá árinu 1965 og fram til ársins 1999 nam skötuselsafli frá nokkrum hundruðum tonna upp í tæp þúsund tonn. Bein sókn í skötuselinn hófst á tíunda áratugnum en aflinn varð ekki mikill fyrr en nú síðustu árin eftir að netaveiðar hófust. Skötuselsaflinn var um 2.850 tonn á árinu 2005 og aflaverðmætið um 670 milljónir króna.