Þegar Fiskifréttir náðu tali af Hauki Eiðssyni, skipstjóra á Karólínu ÞH, rétt fyrir síðustu helgi var báturinn búinn að landa 140 tonnum það sem af var mánuðinum í 16 róðrum eða tæplega 9 tonnum að meðaltali í róðri.

„Fiskiríið hefur verið gott undanfarið, því verður ekki neitað,” sagði Haukur þegar blaðið hafði samband við hann, en þá var hann staddur við Núpinn úti af Melrakkasléttu.

Haukur þakkar góða þorskveiði því að loðna gekk í vor inn í Axarfjörð í fyrsta skiptiðí mörg ár og að þorskurinn hafi verið að elta æti. Hann segir að loðnan sé enn á þessum slóðum.

Meðalafli 300 kg á balann

Karólína ÞH er sérsmíðaður beitningarvélabátur sem kom nýr til Húsavíkur í nóvember síðastliðnum. Þrír menn eru í áhöfn og afkasta miklu. Frá því að báturinn fór á veiðar um miðjan nóvember hafa um 550 tonn fiskast á hann.

„Afköstin við línubeitninguna jafngilda tuttugu og átta til þrjátíu bjóðum og það virðist fiskast meira á vélbeitta línu en handbeitta. Ég kann svo sem ekki neina skýringu á því en þetta eru örugglega samverkandi þættir. Vélin beitir vel, línan er þrifaleg og beitan fersk þegar hún fer í sjó,” segir Haukur.

Aflinn að undanförnu hefur samsvarað að meðaltali 300 kílóum á hvert bjóð sem verður að teljast harla gott miðað við að fyrir nokkrum árum þótti ágætt að fá hundrað kíló á bala. Beitt er kyrrahafsmakríl sem er djúg og alhliða beita bæði fyrir ýsu og þorsk, að sögn Hauks. Hann bendir á að línuafli hafi aukist mikið síðustu árin og telur ástæðuna vera þá að það vanti æti fyrir þorskinn og að þess vegna sæki hann í beituna. „Slíkt hlýtur að haldast í hendur,” segir hann.

Landa á Kópaskeri

Að sögn Hauks er þorskur milli sjötíu og áttatíu prósent af aflanum, tíu til fimmtán prósent eru ýsa auk reytings af steinbíti og hlýra.

„Aflanum er landað á Kópaskeri en hann er unninn hjá GPG á Húsavík. Það er ekki nema hálftíma stím á miðin frá Kópaskeri í stað þriggja til fjögurra tíma stíms frá Húsavík. Það er því hagkvæmara að haga þessu svona,” segir Haukur. Hann segir að ástandið á fiskinum sé gott. Hann sé feitur og góður, mest 2,5-3,0 kíló að þyngd.

Fiskifréttir 26. maí 2006
Fiskifréttir 26. maí 2006

„Veiðiheimildirnar á Karólínu eru á bilinu 600 til 700 tonn, þannig að kvótastaðan hjá okkur er ágæt. Við vonumst til að ná því og kannski ríflega það,” segir Haukur.

Þrátt fyrir góða veiði undanfarið segir Haukur að aflabrögð hafi verið lakari í vetur en síðastliðin ár, meðal annars út af rysjóttri tíð. „Í mörg ár hefur lítið verið sótt á það svæði þar sem við höfum haldið okkur að undanförnu. Veiðin er greinilega eitthvað að glæðast hér núna,” segir hann.

Aflinn að undanförnu hefur samsvarað að meðaltali 300 kílóum á hvert bjóð og komist upp í ríflega 13 tonn í róðri.

Af togurum á trillu

Haukur var stýrimaður á rækjutogaranum Pétri Jónssyni RE og á frystitogaranum  Baldvini Þorsteinssyni EA í mörg ár áður en hann snéri sér að trilluútgerð.

„Ég var búinn að fá mig fullsaddan af langri útiveru og langaði að vera meira í landi. Þetta er allt annað líf og hentar mér mun betur,” segir Haukur. „Ástæðan fyrir því að við keyptum línubeitningarbát var sú að við vildum auka afköstin við veiðarnar og svo er varla hægt að fá handbeitningu í landi lengur. Línubeitningin sparar okkur líka tíma þar sem við getum einbeitt okkur betur að veiðisvæðinu. Með gömlu aðferðinni lagði maður og fór í land en beitningarvélin bíður upp á að maður elti fiskinn og leggi aftur ef þannig ber undir.”

Þegar Haukur er spurður hvort hann telji forsendur til að auka þorskkvótann eins og staðan sé í dag segist hann ekki vera viss um að svo sé.

„Nei, ég held ekki. Mér finnst aftur á móti full ástæða til að hægja á loðnuveiðunum svo ætíð sé ekki tekið frá þorskinum. Þorskurinn er einfaldlega það verðmætasta sem við eigum í sjónum og það má ekki fyrir neinn mun storka því,” segir Haukur Eiðsson.