Að sögn Hörpu Þorláksdóttur hjá SH voru alls flutt um 500 tonn af frystum nílarkarfaflökum á markað í Evrópu og Asíu frá frystihúsi Alpha Group í Kampala í Úganda á sl. ári en útflutningurinn fyrstu þrjá mánuði þessa árs nam hins vegar um 700-800 tonnum. Útflutningur SH á ferskum flökum nam svo um 1300 tonnum í fyrra.
Nílarkarfinn er flakaður og roðflettur í höndum og til skamms tíma var flökunum aðallega pakkað í sjö kíló öskjur. Nú er hins vegar einnig hafin framleiðsla og útflutningur á flakabitum og hefur þróunardeild SH haft veg og vanda af því starfi.
Góður markaður er fyrir nílarkarfaflök í Evrópu og víða í Asíu og vonir eru bundnar við að hægt verði að selja verulegt magn í framtíðinni til Ástralíu.
Tilraunir með línuveiðar í Albertsvatni
Nílarkarfinn þykir bragðgóður fiskur. Nú eru um þrír áratugir síðan þessi fisktegund var flutt í Viktoríuvatni úr ánni Níl neðan fossa og hefur vöxtur og viðgangur stofnsins í vatninu verið með ólíkindum góður. Vaxtarhraði fisksins er gríðarlegur og nær hann tíu kílóa þyngd á aðeins 18 mánuðum. Stærstu fiskarnir eru taldir geta orðið allt að 200 kíló að þyngd.
Árlegur afli úr Viktoríuvatni er talinn nema um hálfri milljón tonna og bendir ekkert til þess að stofninn sé ofveiddur.
Að jafnaði er meðalvigt aflans um fimm til tíu kíló. Aðeins er heimilt að veiða nílarkarfann með kyrrstæðum veiðarfærum en fram að þessu hafa netaveiðar verið alls ráðandi og eru þær stundaðar af veiðimönnum á smábátum.
Að sögn Hörpu er nú verið að gera tilraun með línuveiðar á nílarkarfa í Albertsvatni sem er nálægt Viktoríuvatni. Mikið er í húfi fyrir heimamenn því með línuveiðunum væri hægt að auka aflaverðmætið verulega. Hafa forráðamenn Alpha Group sýnt því áhuga að kaupa notaða smábáta af Þróunarsjóði sjávarútvegsins til þess að nota til línuveiðanna ef í ljós kemur að framtíð er í línuveiðunum.

Þrjú lönd liggja að Viktoríuvatni; Úganda, Tansanía og Kenýa, og starfrækir Alpha Group frystihús í þeim öllum. Fyrsta húsið, sem breytt var til þess að uppfylla gæðastaðla SH er í Úganda, en á næstunni mun frystihús í Tansaníu hefja framleiðslu samkvæmt stöðlum SH. Þar er starfsemi reyndar í fullum gangi en verið er að breyta hluta húsnæðisins í samræmi við kröfur SH.
Fjórir Íslendingar starfa nú hjá Alpha Group við Viktoríuvatn og hafa Halldór Þorsteinsson og Kristján Erlingsson haft framleiðslu- og gæðastjórnun með höndum.
Kólerusmit í ferskum nílarkarfaflökum
Til skamms tíma hefur megnið af nílarkarfanum farið á markað í Evrópu sem fersk flök en þessi útflutningur varð fyrir miklu áfalli í byrjun ársins. Í ljós kom að kólerusmit fannst í flökum, þó ekki frá framleiðanda SH, við skoðun í Evrópu og var innflutningur á ferskum nílarkarfaflökum bannaður samstundis. Gildir það bann enn þá.
Að sögn Hörpu er ljóst að innflutningsbann til Evrópu hefur skaðað marga framleiðendur og hafa þeir ýmist haldið að sér höndum eða reynt að auka framleiðslu á frystum flökum. Leyft er að flytja frystan nílarkarfa til Evrópulanda gegn því að strangt eftirlit sé viðhaft við vinnsluna en Harpa segir mörg frystihúsanna vanbúin til þess að mæta gæðakröfum Evrópumarkaðarins.
Þá hefur það sitt að segja að hærra verð hefur fengist fyrir fersk flök en fryst og að greiðslur fyrir ferska fiskinn hafa borist mun fyrr til framleiðendanna en tíðkast í viðskiptum með frystar afurðir.
Þessi frétt birtist fyrst í Fiskifréttum 24. apríl 1998.