Þorsteinn sagði þar að afli úthafskarfaskipanna á sóknareiningu í sumar hefði verið 40% minni en árið á undan. Hann benti á að afli á sóknareiningu væri e.t.v. ekki góður mælikvarði á þróun í stofnstærð á torfuveiðum sem þessum og sagði þær áhyggjur blunda í sér að hægt væri að veiða úthafskarfann í talsverðum mæli allt þar til stofninn hryndi líkt og gerðist með síldina á sjöunda áratug síðustu aldar.

100 skip að gramsa á litlum bletti

„Veiðarnar í sumar áttu sér stað rétt utan við landhelgislínuna og þar voru um 100 skip að gramsa í sömu aðaltorfunni,” sagði Þórður á Þerney. „Þetta þýddi auðvitað að vegna fjölda skipa var tafsamt að komast að torfunni og fyrir vikið var afli á sóknareiningu minni en ella. Ef torfan hefði verið 30 mílum norðaustar hefði afli á sóknareiningu orðið miklu meiri. Þar með er ég þó ekki að segja að staðan sé ekki alvarleg.“

-Hvernig ætti að bregðast við þessu að þínum dómi?

Þórður Magnússon, skipstjóri á togaranum Þerney RE.
Þórður Magnússon, skipstjóri á togaranum Þerney RE.

„Það þarf að draga stórlega úr sókn erlendra skipa í þennan stofn utan við lögsögumörkin. Það er ótækt að hleypa 100 skipum á þennan fisk. Fordæmi eru fyrir því að strandríki hafi gripið í taumana utan lögsögu sinnar. Kanadamenn hafa til dæmis haft hönd í bagga með veiðum fyrir utan kanadísku lögsöguna og gerður var samningur um þorskveiðar í Smugunni í Barentshafi þótt Smugan væri á alþjóðlegu hafsvæði. Þessi karfastofn gengur inn í okkar lögsögu og út úr henni aftur og við hljótum að hafa meiri rétt til þess að stjórna þessum veiðum en einhverjar þjóðir við Eystrasaltið eða annars staðar.“

Fiskifréttir 1. október 2004.
Fiskifréttir 1. október 2004.

Nánast stjórnlausar veiðar

„Ef úthafskarfinn heldur sig áfram utan við íslensku landhelgismörkin verður hann einfaldlega fiskaður upp,“ heldur Þórður áfram.

„Veiðarnar eins og þær eru stundaðar núna eru nánast stjórnlausar. Frumskógarlögmálið er í fullu gildi og ekkert að marka uppgefnar aflatölur. Þar til viðbótar kemur afli af hentifánaskipum sem enginn veit hvað veiða mikið. Heildaraflinn er því miklu meiri en opinberar tölur gefa til kynna. Þetta vita bæði vísindamenn og menn í stjórnunarnefndum NEAFC og NAFO. Þar við bætist svo að lítið er fylgst með landhelgislínunni af hálfu Landhelgisgæslunnar. Ég er ekki að segja að mikið sé svindlað á línunni en það er alltaf eitthvað um það. Þróun úthafskarfaveiðanna er grafalvarleg fyrir okkur Íslendinga en við sinnum málinu afar lítið, ef frá er talin sú vinna sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt í það. Samt vantar sárlega meiri rannsóknir. Ég fagna því að hafin sé umræða um þetta mál því það þolir enga bið að á því sé tekið,“ sagði Þórður Magnússon.