Þegar rætt var við Grím síðastliðinn þriðjudag var Antares staddur um 12 mílur vestur af Garðskaga að leita að loðnu. Bræla hafði verið um nóttina og fram eftir þriðjudeginum og engin skip voru þá að veiðum.
Óánægja með loðnurannsóknir
Grímur gat þess að nokkuð almenn óánægja væri meðal skipstjóra loðnuskipa hvernig staðið hefði verið að loðnurannsóknum. Hins vegar væru skiptar skoðanir meðal skipstjóra eins og ávallt hvort mikið eða lítið væri af loðnu í sjónum.
„Ég tel að rannsóknarskipin þurfi að vera miklu lengur á miðunum en þau hafa verið til að mæla loðnuna. Þótt ég hafi ekki orðið var við mikla loðnu gæti engu að síður verið mikið af henni. Á góðum degi gæti loðnan birst allt í einu og þá er mikilvægt að skip sé á staðnum til að mæla hana. Enn fremur held ég að vonlaust sé að mæla styrkleika í loðnutorfum með nokkurri nákvæmni eftir að hún er komin upp í fjöru. Mælarnir gefa iðulega aðeins upp að torfan sé nokkrir faðmar á þykkt þótt hún nái í raun alveg niður í botn. Ég hef sjálfur lent í því að mælitækin gefi t.d. upp 4-5 faðma en fengið kjaftfulla nót. Það segir mér að torfan sé miklu þykkari en 4-5 faðmar.“
Forðast að feta í fótspor Norðmanna
-Er hugsanlegt að meiri loðna sé á ferðinni en mælst hefur?
„Ég veit ekki hvort svo er og efast reyndar um það. Ef við erum í einhverjum vafa þá tel ég að við eigum við láta loðnuna njóta þess. Við getum alveg lifað af eitt ár þótt lítið veiðist. Við stöndum alveg jafnir eftir. Norðmenn leyfðu veiðar á loðnu í Barentshafi þar til stofninn hrundi gjörsamlega fyrir nokkrum árum og þeir hafa ekki náð honum upp aftur. Við eigum að forðast að feta í fótspor þeirra. Við höfum þrátt fyrir allt ekkert annað að byggja á en mælingar fiskifræðinga þótt þær séu ófullkomnar. Ef útlitið er ekki gott og við erum hræddir um að ganga nærri stofninum eigum við hiklaust að stöðva veiðar. Það er ekki aðeins um framtíð loðnuveiða að tefla heldur er loðnan mikilvæg fæða fyrir aðra fiska þannig að við þurfum að fara varlega.”
Fer eftir veðri
Þegar rætt var við Grím hafði Antares farið einn hrognatúr og þeir voru nýlega byrjaðir á þeim næsta þegar brældi. Grímur taldi að farið væri að styttast í lok vertíðarinnar.
„Það fer mikið eftir veðri hvenær lokin verða. Loðnan á ekki langt eftir í hrygningu og ef kemur bræla í viku held ég að ekki þurfi að gá að loðnunni meir. Ef veður verður gott getur teygst talsvert úr vertíðinni enn. Hins vegar væri óskandi að eitthvað af loðnu gengi til viðbótar við það sem mælst hefur, annað hvort loðna sem hefði hugsanlega gengið djúpt út af suðurströndinni eða ganga sem kæmi að vestan.”
Minna og ódýrara skip
„Ég hef verið talsmaður þess í mörg ár að Hafrannsóknastofnun eigi að hafa minna og ódýrara skip við loðnuleit og loðnurannsóknir; skip sem gæti fylgt flotanum eftir og leitað stöðugt að loðnu. Hægt væri að láta leitarskipið hafa það sem verður afgangs af loðnu í nótinni og ekki hægt að nýta í annað eftir að skipin hafa fyllt sig. Slíkt gæti jafnvel borgað rekstur skipsins. Á síldarárunum voru skip við síldarleit allan tímann sem veiðarnar fóru fram og það var allt annað að eiga samskipti við fiskifræðinga sem voru stöðugt á miðunum og töluðu sama mál og sjómenn. Slíkt skip gæti einnig komið að gagni við leit að norsk-íslensku síldinni. Til dæmis væri gott að hafa skip sem leitaði að norsk-íslenskri síld inni í íslensku lögsögunni. Hugsanlega gengur síldin fyrr inn í lögsögu okkar en við síldarleit allan tímann sem veiðarnar fóru fram og það var allt annað að eiga samskipti við fiskifræðinga sem voru stöðugt á miðunum og töluðu sama mál og sjómenn. Slíkt skip gæti einnig komið að gagni við leit að norsk-íslensku síldinni. Til dæmis væri gott að hafa skip sem leitaði að norsk-íslenskri síld inni í íslensku lögsögunni. Hugsanlega gengur síldin fyrr inn í lögsögu okkar en við höldum og það skiptir miklu máli,” sagði Grímur Jón Grímsson.