Fiskafurðir Útgerð hf. gera togarana út í samvinnu við rússneskan samstarfsaðila í Vladivostok og eru þau á rússnesku flaggi. Asanda og Stella Karina lögðu af stað frá Íslandi 22. desember síðastliðinn og sigldu vestur á bóginn, gegnum Panamaskurðinn og yfir Kyrrahafið til borgarinnar Pusan í Suður-Kóreu. Þar voru teknar vistir, bætt við mannskap og gerðar minniháttar lagfæringar á skipunum áður en haldið var til veiða norður í Okotskhaf.

Strangt eftirlit með veiðunum

„Rækjuveiðar úti fyrir Austur-Rússlandi eiga sér ekki langa sögu. Fyrir nokkrum árum voru ekki nema 5-6 skip á rækju á öllu hafsvæðinu. Reyndar eru útgefin rækjuveiðileyfi núna 64 talsins en ég hef ekki trú á því að það séu nema um tveir tugir skipa á veiðum, þar af rúmlega helmingur í Okotskhafinu,“ segir Hörður.

Fiskifréttir 3. maí 2002.
Fiskifréttir 3. maí 2002.

„Eftirlitið með veiðunum er mjög strangt af hálfu rússneskra yfirvalda. Á þremur fyrstu vikunum á veiðum fengum við þrisvar sinnum eftirlitsmenn um borð til okkar til þess að mæla veiðarfæri og skoða afla og aflaskráningu. Einnig kemur fyrir að eftirlitsmaður haldi kyrru fyrir í veiðiskipunum svo vikum skiptir og er það yfirleitt til bóta því þá losna skipin við þær tafir sem óhjákvæmilega verða vegna heimsókna eftirlitsskipsins. Svæðum er lokað árstímabundið, til dæmis þegar rækjan er skelveik. Þá má nefna að rækjan sem telst til undirmáls er stærri en við eigum að venjast.“

Hörður gat þess enn fremur að rússneskir vísindamenn væru um borð í Stellu Karinu til þess að sinna rækjurannsóknum.

Kvótinn keyptur á uppboði

Rækjuveiðarnar má einungis stunda utan 12 mílna frá landi. Útgerðirnar kaupa sér kvóta á kvótauppboðum í Rússlandi. Verðið er mismunandi eftir svæðum því rækjan er ekki alls staðar jafnstór og verðmæt, til dæmis er smærri rækja í Beringssundi en í Okotskhafi. Lágmarksverð fyrir rækjukvótann á kvótauppboðunum jafngildir um 40 íslenskum krónum á kílóið.

Í sumar ætla Íslendingarnir að skipta liði þannig að annað skipið verði áfram að veiðum í Okotskhafi en hitt fari austur í Beringshaf. Síðan verður metið hvort veiðisvæðið gefur betur þegar til lengri tíma er litið.

Hörður segir að lítil reynsla sé komin á veiðarnar enn þá og færist undan því að nefna tölur um aflabrögð, lætur nægja að segja að aflinn hafi verið dræmur. Skylt er að nota rækjuskilju við veiðamar og er meðafli mjög lítill – það er helst að einn og einn pólþorskur (öðru nafni ískóð) og nokkrar aðrar tegundir fljóti með. Okotskhaf, sem er innhaf úr Kyrrahafi, er gríðarstórt og þar eru stundaðar miklar veiðar á ufsa og krabba. Þá hafa Íslendingarnir orðið varir við nokkur norsk línuskip, sem flaggað hefur verið til Rússlands, en þau stunda veiðar á grálúðu og þorski.

„Veðrið hefur verið dálítið rysjótt frá því að við hófum veiðar, sem er frekar óvenjulegt þessum árstíma að mér skilst. Það hafa komið dæmigerðar íslenskar brælur en sjór gengur fljótt niður þegar lægir. Hitinn hefur verið í kringum núllgráðurnar, en yfir háveturinn getur orðið æði kalt á þessum slóðum, iðulega 25 stiga frost. Almennt er þó fremur kyrrt veður öfugt við það sem tíðkast á Flæmingjagrunni, þar sem sjór getur orðið hrikalega þungur og erfiður, sérstaklega yfir vetrartímann,“ segir Hörður. Hann hefur samanburðinn eftir að hafa verið skipstjóri á rækjutogurunum Sónar og Cape Ice á Flæmingjagrunni og í Barentshafi undanfarin ár.

Þrír Íslendingar á hvoru skipi

Skipin tvö, Stella Karina og Asanda, eru þannig mönnuð að þrír Íslendingar eru um borð í senn – skipstjóri, vélstjóri og vinnslustjóri – og er úthaldið þrír mánuðir í einu og svo frí í álíka langan tíma á milli. Aðrir í áhöfn eru Rússar, en alls eru skipverjar 24 talsins.

Bjarni Olgeirsson er skipstjóri á Stellu Karinu á móti Herði. Hinrik Hringsson (áður skipstjóri á Sunnu SI) stýrir Asanda en ófrágengið er hver verður skipstjóri á móti honum.Skipin landa öllum afla sínum í flutningaskip á hafi úti og fá enn fremur vistir með þeim. Viðgerðarþjónustu sækja þau til Suður-Kóreu ef með þar