Kolmunnaveiðar íslensku skipanna hafa gengið upp og ofan frá því að þær hófust fyrir rúmum mánuði. Aflinn var mjög góður fram að páskum en eftir páska hefur afleitt tíðarfar spillt fyrir veiðum auk þess sem kolmunninn hefur dreift sér. Lítil veiði hefur verið á alþjóðlega hafsvæðinu vestan við lögsögu Írlands og Skotlands en einhver veiði hefur verið innan 200 mílna markanna.

Íslensku skipin hafa reynt fyrir sér í Rósagarðinum en þótt þar hafi orðið vart við kolmunna hefur lítill afli fengist vegna veðurs. Reyndar búast menn ekki við því að veiðin glæðist innan íslensku landhelginnar fyrr en kemur fram á sumarið.

„Það fékkst enginn afli í síðustu veiðiferð enda var lítið hægt að vera að veiðum vegna veðurs. I hinum tveimur veiðiferðunum var aflinn samtals um 2.000 tonn,“ sagði Hjálmar Ingason, fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Jóni Kjartanssyni SU, er Fiskifréttir náðu tali af honum á Eskifirði.

Jón Kjartansson SU var þá nýkominn til hafnar úr þriðju veiðiferð skipsins á kolmunnamiðin vestur af Írlandi og má segja að áhöfnin hafi farið fýluferð. Kolmunninn var búinn að dreifa sér og stöðugar brælur gerðu það af verkum að trollinu var aðeins dýft einu sinni í sjó í veiðiferðinni.

Trollin sprungu vegna aflamagnsins

Fyrsta veiðiferð Jóns Kjartanssonar SU á kolmunnamiðin var farin 17. mars síðastliðin og var Grétar Rögnvarsson skipstjóri þá við stjórnvölinn. Norsk skip og færeysk höfðu þá fengið mokveiði dagana á undan og var veiðin jafnt innan sem utan írsku landhelginnar. Ferðinni var heitið á miðin á alþjóðlega hafsvæðinu um 70 til 80 mílur fyrir vestan írsku landhelgismörkin. Þaðan voru svo um 480 mílur að Ingólfshöfða þannig að óhætt er að segja að veiðisvæðið hafi verið úti í miðju Ballarhafi.

„Það vantaði ekki að það voru gríðarlegar lóðningar á svæðinu og við áttum í mestu vandræðum með að stilla aflanum í hóf. Það var híft þegar aflamælarnir tóku við sér en það dugði ekki til. I fyrsta holinu flaut trollpokinn upp úttroðinn af afla og við náðum að dæla um 200 tonnum af kolmunna úr pokanum en í öðru holinu sprakk pokinn og við misstum allan aflann. Alls náðum við tæpum 700 tonnum í veiðiferðinni og þeim afla var landað í Færeyjum,“ sagði Hjálmar en hann tók þá við skipstjórninni af Grétari sem fór í frí.

Trollið styrkt í Færeyjum

„Önnur veiðiferðin gekk ágætlega. Við létum styrkja trollið í Færeyjum og það varð til þess að við áttum betra með að ráða við þennan mikla afla. Við fengum 1.240 tonn í veiðiferðinni og megnið af þeim afla fékkst á einum sólarhring. Við vorum mikið að fá þetta 200 tonn eftir eins til fjögurra daga hol,“ sagði Hjálmar og upplýsti að þegar þessi afli fékkst hafi hin íslensku skipin verið á leiðinni í land, flest með þokkalegan afla.

Mikill viðbúnaður hefur verið hjá íslenskum útgerðum vegna kolmunnaævintýrisins og hefur Hraðfrystihús Eskifjarðar hf., sem gerir meðal annars út Jón Kjartansson SU, ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum.

Verið er að setja 7.500 hestafla aðalvél í Hólmaborg SU og seinni partinn í sumar fer Jón Kjartansson SU í breytingar til þess að eiga hægara um vik með að stunda kolmunnaveiðarnar. Sett verður 7.000 hestafla aðalvél í skipið í stað 2.800 hestafla vélar sem fyrir er. Þá verður vindukerfinu skipt út. Í stað 18 tonna flottrollsvindu kemur 52 tonna vinda og í stað 24 tonna togvindu koma 90 tonna vindur. Allt þetta hjálpast að til þess að margfalda möguleika skipsins til flottrollsveiða.

Eins og versta vetrarveður

Hið nýja tog- og nótaskip Skagamanna, Óli í Sandgerði AK, fór sem fyrr segir í Rósagarðinn í síðustu viku í leit að kolmunna en að sögn Marteins Einarssonar skipstjóra var árangurinn lítill.

„Það var snælduvitlaust veður, 11 vindstig og aðstæður voru eins og þær verða verstar að vetrarlagi. Við náðum þó einu holi, toguðum lengi eða í eina 12 tíma, og fengum um 80 tonna afla,“ sagði Marteinn en að hans sögn var þá ákveðið að leita hafnar vegna smávægilegrar bilunar.

Stoppið verður þó varla langt en skipið verður á kolmunnanum þar til að síldveiðarnar hefjast í sumar.