Verkfall á 80 skipum tekur gildi 2. janúar ef ekki semst. „Þingið hvatti alla vélstjóra til að standa þétt bak við kröfum um breytt hlutaskipti í komandi kjarasamningum og hvika hvergi frá settu marki. Fram kom mikill baráttuvilji í þessu máli og ljóst var að menn eru reiðubúnir að berjast til þrautar,“ sagði Helgi Laxdal formaður Vélstjórafélags Íslands í samtali við Fiskifréttir að loknu IV. Vélstjóraþingi, sem haldið var í Reykjavík í síðustu viku.
„Ég get einnig nefnt í þessu sambandi, að ég er með í höndunum nýlega samþykkt Alþjóðlega flutningaverkamannasambandsins (ITF) varðandi laun á fiskiskipum undir þægindafánum. Þar er launaröðin skipstjóri, yfirvélstjóri og síðan stýrimaður, — nákvæmlega eins og við höfum farið fram á, nema hvað yfirvélstjórinn er hlutfallslega hærra metinn þar en við leggjum til.“
Krafa Vélstjórafélagsins er sú að skiptahlutur yfirvélstjóra hækki úr 1,50-1,75; fyrsta vélstjóra úr 1,25 í 1,50; og annars vélstjóra í 1,25. Sem kunnugt er hefur LÍÚ hafnað þessari kröfu alfarið og Farmanna- og fiskimannasambandið (FFSÍ) hefur einnig lýst sig andvígt því að innbyrðis hlutföllum í hlutaskiptum verði raskað.
Náist ekki sættir í komandi kjarasamningaviðræðum skellur á verkfall 2. janúar n.k. á fiskiskipum sem hafa vélarstærð 1501 kw og yfir. Um er að ræða 80 skip, aðallega frystitogarar og stærstu loðnuskipin.
Veiðikvótamarkaður
Vélstjóraþingið lýsir þeirri skoðun sinni að núverandi stjórnkerfi fiskveiða sé það heppilegasta sem í boði sé. Hins vegar þurfi að koma í veg fyrir að útgerðarmenn geti nýtt sér kerfið til þess að velta kostnaði af kaupum veiðiheimilda yfir á sjómenn. Þingið vill að settur verði á fót veiðikvótamarkaður sem öll viðskipti með kvóta færu í gegnum, eins og nefnd þriggja ráðuneytisstjóra lagði til í ársbyrjun 1994.
Til viðbótar verði stofnað til sérstaks veiðikvótareiknings þannig að við sölu á veiðikvóta frá skipi gangi fjárhæð sem nemur hlut sjómanna inn á reikninginn, en við kaup á veiðikvóta á skip greiðist út af reikningnum á móti hlut sjómanna.
Helgi Laxdal vék sérstaklega að hugmyndinni um veiðikvótamarkaðinn í ræðu sinni og sagði hana hafa marga kosti. Hann benti á að með því að skylda öll kvótaviðskipti á slíkan markað væri ekki lengur hægt að velta hluta kvótaverðsins yfir á sjómenn, sem aftur yrði þess valdandi að gangverð á kvóta myndi lækka verulega. Þegar svo væri komið að útgerðin yrði ein að greiða kvótaverðið, myndi hún í ríkara mæli en nú kappkosta að fá sem hæst verð fyrir aflann. Þar sem hæsta fáanlegt verð væri ávallt á fiskmörkuðunum myndu markaðsviðskipti aukast.
„Stjórnvöld komu útgerðinni til bjargar á sínum tíma með því að setja á stofn ríkisrekið Verðlagsráð, sem ákvað verð á fiski upp úr sjó fyrir útgerðina vegna þess að hún og vinnslan áttu í lamandi útistöðum um verðlagninguna. Stjórnvöldum ber einnig að koma að þessari deilu og stuðla að lausn hennar. Það geta þau gert með lögfestingu kvótamarkaðar að viðbættum öðrum aðgerðum, sem við nánari skoðun kunna að reynast nauðsynlegar. Það er nefnilega svo, að ekki er til nein ein verðmyndunaraðferð, sem hentar öllum greinum í sjávarútvegi, þess í stað er blanda af fleiri en einni,“ sagði Helgi.
Því má bæta við að Vélstjóraþingið óskaði eftir því að verð á afla uppsjávarfiska yrði tengt heimsmarkaðsverði afurða. Núverandi verðmyndun væri óeðlileg vegna hringamyndunar í veiðum og vinnslu í þessari grein.