Sú var tíðin að hákarlaveiðar voru umsvifamikil atvinnugrein á Íslandi sem gaf af sér álitlegar útflutningstekjur. Þá var hákarlinn eingöngu veiddur vegna lifrarinnar sem brædd var til lýsisgerðar.

Nú er hákarlaveiðin stunduð af örfáum bátasjómönnum sem leggja hákarlalínu í hjáverkum svo hægt sé að blóta þorrann á hefðbundinn hátt með hákarli og brennivíni.

„Ég byrjaði á hákarlaveiðum sjálfur árið 1979, en áður hafði ég farið í róðra bæði með föður mínum og öðrum körlum sem stunduðu þessar veiðar hérna frá Vopnafirði. Hákarlalínan er nákvæmlega eins útbúin í dag og hún var þá. Hver lína er með 10 krókum og eru 10 faðmar á milli krókanna og steinn þar á milli. Krókarnir eru festir við línuna með keðju sem er einn og hálfur faðmur á lengd,“ segir Guðni.

Veiði afar treg síðustu árin

Hákarlinn skorinn á bryggjunni á Vopnafirði. Mynd/Guðni Ásgrímsson
Hákarlinn skorinn á bryggjunni á Vopnafirði. Mynd/Guðni Ásgrímsson

„Veiðin hefur verið mjög lítil síðustu árin, menn hafa verið að fá einn eða tvo hákarla yfir sumarið. Þó hefur aflinn heldur glæðst síðustu tvö sumur. Þannig voru þess dæmi í fyrrasumar að menn fengu allt upp í fjóra hákarla í róðri á tvær línur, sem er auðvitað mjög gott. Sjálfur fékk ég fjóra hákarla í sumar en ég byrjaði í mars og hætti í ágúst. Reyndar byrjum við oft að leggja línuna í janúar en í seinni tíð hefur það reynst þýðingarlaust því enginn hefur fengið neitt fyrir en komið er fram í apríl. Nú orðið er helst veiðivon á sumrin. Í hittifyrra var ég með línu í sjó allt haustið en fékk engan afla. Kunningi minn á Norðfirði fékk hins vegar sjö hákarla þetta haust. Ég legg línuna alltaf á sama svæðinu, úti af Bjarnarey, sem er um 30 mílna stím frá Vopnafirði. Við leggjum línuna á 50-90 faðma dýpi á sumrin en gjarnan eitthvað dýpra á veturna,“ segir Guðni.

Fiskifréttir 19. desember 2003.
Fiskifréttir 19. desember 2003.

„Gríptu hakann, strákur!“

Þeir sem hafa alla sína þekkingu af hákörlum úr amerískum bíómyndum álykta sem svo að hákarlaveiðar hljóti að vera hættulegur veiðiskapur. Þeir sjá fyrir sér blóðþyrstar skepnur með gínandi skolta af oddhvössum tönnum, sem læsa sig í menn og velta  bátum. Brjóskhákarlinn sem íslenskir sjómenn egna fyrir er allt annarrar náttúru. Þetta er letileg skepna sem varla hefur fyrir því að brjótast um þegar hann er fangaður.

„Hákarlinn vindur kannski aðeins upp á sig þegar hann er dreginn að bátnum en annars er mjög auðvelt að eiga við hann. Ég get nefnt þér lítið dæmi um það. Þegar ég var 14 ára gamall fór ég í hákarlaróður með Sigurjóni heitnum Jónssyni á bátnum Gusti. Það var hákarl á línunni og annar hákarl elti hann og kom upp á yfirborðið með honum. Þegar svo lausi hákarlinn synti aftur með bátnum hrópaði karlinn á mig: „Gríptu hakann, strákur!“. Ég gerði það sem mér var sagt og krækti með hakanum í miðjan hákarlinn og hélt honum þangað til Sigurjón kom almennilegri festingu á skepnuna. Ég man að ég tók rosalega á, en líklega hefur það verið ástæðulaust því það var eins og hákarlinn stoppaði við það að krækt væri í hann. Þetta var stór hákarl og ég var náttúrlega mjög upp með mér af þessu,“ segir Guðni.

Verkunaraðferðin

Þegar hákarlinn kemur upp á yfirborðið er hann yfirleitt lifandi. Hann er þá gjarnan aflífaður með skoti í hausinn, en auk þess er stungið í tálknin á honum og hann látinn blóðrenna á leiðinni í land. En hvernig er hákarlinn verkaður?

Fiskifréttir 19. desember 2003.
Fiskifréttir 19. desember 2003.

„Við skerum hann í bita og setjum hann í frost meðan flugnatíminn stendur yfir. í lok september tökum við hákarlinn úr frostinu og látum hann þiðna í vikutíma eða svo og setjum hann svo í kös í rimlakassa og fergjum með miklu grjóti. Að mánuði liðnum er  hann svo tekinn úr kössunum, skorinn í minni stykki og hengdur upp í hjall þangað til hann er verkaður. Kviðhákarlinn, það er að segja þau stykki sem tekin eru úr kvið skepnunnar, þarf aðeins að hanga í rúman mánuð í góðu tíðarfari en stykkin úr hryggnum, sem eru þykkari, taka helmingi lengri tíma. Svona förum við að hérna fyrir austan. Reyndar samþykkja hákarlaverkendur fyrir vestan ekki þennan verkunartíma og vilja helst láta hanga í 8-9 mánuði,“ segir Guðni.

Óætur hákarl

Fram kom í máli Guðna að hákarlaverkunin hjá honum hefði misheppnast mörg undanfarin ár án þess að neinar skýringar væru á því.

„Af einhverjum ástæðum hefur hákarlinn ekki verkast þótt sömu aðferðum og áður hafi verið beitt og ekkert hafi verið upp á tíðarfarið að klaga. Hákarlinn hefur hreinlega verið óætur og við höfum orðið að fleygja honum. Við höldum samt áfram að reyna enda eru veiðarnar stundaðar ánægjunnar vegna en ekki af gróðavon. Það hlýtur að koma að því að verkunin lukkist á ný,“ segir Guðni.