Við spurðum Sigurð hvernig fiskeríið hefði gengið á þessu ári og hvernig menn bæru sig að við skelfiskveiðarnar, en fyrst nokkur orð um rækjuveiðar.
„Við hættum á rækjunni fyrri partinn í ágúst. Við vorum aðallega að veiðum hér úti af Jökli og mér telst til að aflinn sé a.m.k. 20% minni en í fyrra. Við erum sannfærðir um að þetta sé togurunum og ráðherranum að kenna. Halldór ætlaði víst að prófa hvað miðin þyldu mikið og hleypti togurunum lausum með þessum afleiðingum.“
Hvenær byrjuðuð þið skelfiskveiðarnar?
„Við byrjuðum þær um miðjan september. Það hefur gengið mjög vel og þetta eru ákaflega þægilegar veiðar, ekki síst eftir að þeir opnuðu það sem menn kalla svæði tvö. Þetta svæði er hér rétt fyrir utan og er nokkurs konar vetrarsvæði sem menn mega sækja á í brælu og verri veðrum. Annars eru miðin hér á ýmsum stöðum en mest er þó veitt við Bjarneyjar og inn undir Svefneyjarfót. Við þökkum þessa góðu og jöfnu veiði því að skelveiðarnar hafa alltaf verið undir ströngu eftirliti fiskifræðinganna og það hefur verið til fyrirmyndar hvað samvinnan við þá hefur verið góð.“
Er ekki togstreita hér á milli byggðarlaga, hvað varðar skelveiðarnar?
„Það var mikil togstreita hér áður fyrr og við í Hólminum höfum reynt að halda okkar hlut eftir besta megni. Annars er ekki sama spenna varðandi þessar veiðar og hér áður fyrr. Staðreynd málsins er einfaldlega sú að við sem höfum skelkvóta, fáum að sama skapi minni botnfiskkvóta. Botnfiskkvótinn rýrnar í ákveðnu hlutfalli eftir því sem skelkvótinn stækkar og þetta atriði hefur orðið til þess að menn eru ekki jafn spenntir fyrir þessum veiðum og var hér áður fyrr áður en kvótakerfið var sett á.“
Hvað er skelkvótinn ykkar stór í ár?
„Við erum með sameiginlegan kvóta sem er úthlutað til vinnslustöðvanna. Við sem erum hjá Rækjunesi, samtals fimm til sex bátar, skiptum þannig á milli okkar 2800 tonnum, þannig að það lætur nærri að það séu um 400 til 500 tonn á bát að jafnaði.“
Er skelin algjör uppistaða sjávarútvegs hér í Stykkishólmi?
„Það er alveg óhætt að fullyrða það. Það er varla hægt að tala um aðra útgerð héðan þó við stundum rækjuveiðarnar hjá Rækjunesi einhvern part ársins. Skelveiðarnar getum við þó stundað helming ársins. Að vísu er talsverður kraftur í bátum hér á vetrarvertíð en þá er það líka upptalið. Skelin er kjölfestan og við værum illa staddir ef við hefðum hana ekki.“
Hvað er algengt að þið hafi eftir hvern túr á skel?
„Fimm og hálft tonn er mjög algengt. Það er annars misjafnt hve við erum lengi að ná þessu magni en það þykir gott að ná einu tonni á veiðitíma.“
Hvað dragið þið plóginn lengi í einu?
„Það er ekki lengi. Yfirleitt er það upp í tíu mínútur í senn og það þykir ágætt ef við náum 500 kg í hvert sinn en svo fer alltaf talsverður tími í að gera klárt.“
Þú segir að þetta séu þægilegar veiðar?
„Ákaflega og það kvartar enginn yfir því að vera á skel. Við förum yfirleitt út um klukkan hálf átta á morgnana og erum alltaf komnir heim fyrir fimm. Oftast fyrr. Launin eru líka mjög góð og hásetahluturinn hjá okkur í síðasta mánuði var 100 þúsund krónur svo dæmi séu nefnd. Það er bara einn háseti í áhöfninni en hinir eru allir með hærri hlut. Þetta eru mjög öruggar veiðar og við höfum t.d. ekki misst dag úr vegna veðurs enn sem komið er og við getum gengið að skelinni vísri. Þetta er því ekki frábrugðið hefðbundnum vinnutíma í landi fyrir utan það að við tökum okkar frí á föstudögum og laugardögum en róum á sunnudögum þannig að það sé skel til staðar þegar fólk mætir til vinnu á mánudagsmorgni.“
Hefur orðið mikil þróun í þessum veiðum á undanförnum árum?
„Mjög mikil. Ég byrjaði á skel fyrir einum 16 árum og þá var veitt með svokölluðum kassaplóg sem ekki var mjög stórvirkt tæki. Síðan komu skosku plógarnir sem við notum enn þó að nú séu þeir smíðaðir hér í Stykkishólmi. Annars var mesta vinnan hér áður fyrr sú að við þurftum að handtína allt ruslið og auka aflann sem slæddist með. Þetta var mjög erfið og leiðinleg vinna en eftir að við fengum hreinsivélarnar fyrir nokkrum árum hefur þetta vandamál horfið. Hreinsivélarnar voru stórbylting fyrir okkur sjómennina,“ sagði Sigurður Hreiðarsson skipstjóri.