Norðmenn hafa stundað makrílveiðar með handfærum um langt árabil en þær hafa ekki tíðkast hér á landi til þessa ef frá eru taldar örfáar tilraunir einstakra báta. Grétar Vilbergsson, skipstjóri  á Silfurnesinu SF, sagði í samtali við Fiskifréttir 21. september 2007 að hann hefði farið tvo prufutúra um sumarið til að veiða makríl úti af Hornafirði.

„Ég er þess fullviss að unnt sé að veiða makríl á handfæri við Ísland. Í sumar fékk ég nokkra stóra og fallega makríla á færin. Ég var ekki með réttan afslítara við rúllurnar þannig að lítið náðist um borð. Við fórum því til Noregs til að kynna okkur þessar veiðar nánar. Ég keypti mér einnig afslítara að norskri fyrirmynd. Áður rann makríllinn hjá mér upp eins og á línuspili og þess vegna misstum við þá flest alla. Nú kemur makríllinn ekki við neitt fyrr en hann lendir í afslítaranum,“ sagði Grétar.

Ókannaður stofn

Fiskifréttir 21. september 2007.
Fiskifréttir 21. september 2007.

Fram kom hjá Grétari að hann er með tvær handfærarúllur frá DNG auk norska afslítarans. Á hvorri rúllu eru 35 krókar. Grétar sagðist vera í startholunum og myndi fara í róður með nýja búnaðinn um borð við fyrsta tækifæri.

„Norðmennirnir fóru út með okkur og sýndu okkur hvernig veiðarnar fara fram. Yfirleitt eru þetta stærri bátar sem stunda handfæraveiðar á makríl í Noregi en okkar bátar eru. Þeir eru með frá fimm og upp í átta rúllur um borð og á hverri rúllu er slóði með allt að 50 krókum. Þeir geta fengið 10-15 tonn af makríl eftir daginn. Þetta er tiltölulega einfaldur veiðiskapur og það þarf ekki marga menn um borð. Japanskir kaupendur bíða á bryggjunni í Noregi eftir makrílnum. Hann er heilfrystur en hluti hans er flakaður og reyktur,“ sagði Grétar.

Hann bætti því að bátarnir hefðu ekki verið mikið á sjó í Noregi þegar þeir voru þar enda hafði verðið lækkað niður í um 60-70 krónur íslenskar fyrir kílóið vegna mikils framboðs. Verðið sveiflast talsvert og fer upp í 270 íslenskar krónur á kíló þegar skortur er á markaðinum.

„Makríllinn er ókannaður stofn við Íslands. Við vitum lítið annað en það sem við höfum heyrt frá öðrum sem hafa fengið makríl sem meðafla. Við höfum heyrt að hægt sé að veiða makríl fram eftir hausti. Okkur er einnig sagt að smár makríll eigi það til að koma í netin á veturna og því eru menn jafnvel að gæla við það að makríllinn gæti verið að hrygna hér við land,“ sagði Grétar.

Búnaðurinn virkar vel

Ómar Fransson, skipstjóri á Sævari SF, hafði prófað nýja búnaðinn sem hann keypti til makrílveiða í Noregi þegar Fiskifréttir ræddu við hann fyrr í vikunni. Í bátnum eru þrjár rúllur með samtals 125 krókum.

„Við höfum aðeins farið í eina veiðiferð og búnaðurinn virkaði vel en við fengum samt engan makrílinn. Bæði er það að hafsvæðið er of stórt fyrir einn bát til að leita að makríl á og veður hamlaði því að við kæmumst á bestu svæðin. Við reyndum fyrir okkur  vestur við Hrolllaugseyjar. Strax og veður lægir ætlum við að kanna austursvæðið þar sem aðallega hefur orðið vart við makríl. Það er því ekki komin nein reynsla á þetta ennþá. Ég hef fulla trú á því að hægt sé að veiða makríl hér á handfæri, að minnsta kosti ætlum við að gefa þessum veiðum tækifæri,“ sagði Ómar Fransson.