Í skýrslunni kemur fram að samanlagt brottkast þorsks árið 2002 hafi verið 1.822 tonn, eða um 1% af lönduðum afla. Brottkast þorsks var 3.814 tonn árið 2001, eða 1,8%, og hefur það því minnkað verulega.

Enda þótt gögn um brottkast þorsks á fyrri árum séu takmörkuð má þó álykta að brottkast þorsks árið 2002 hafi verið með allra minnsta móti, segir í skýrslunni.

Brottkast ýsu 4,9 prósent af lönduðum afla

Fiskiufréttir 23. maí 2003.
Fiskiufréttir 23. maí 2003.

Samanlagt brottkast ýsu mældist vera 2.315 tonn, eða 4,9% af lönduðum afla 2002. Brottkast ýsu árið 2001 var 1.016 tonn, eða 3%, og hefur það því vaxið talsvert. Þessi aukning á aðallega rætur að rekja til aukins brottkasts í botnvörpuveiðum. Í skýrslunni er tekið fram að brottkast ýsu árið 2002 sé ekki hátt miðað við ástandið á síðasta áratug þegar hlutfall brottkasts af lönduðum afla fór oft yfir 10%. Engu að síður sé óviðunandi að brottkast á ýsu aukist meðan það minnkar eða sé nánast ekkert í öðrum tegundum.

Ufsi og gullkarfi eru að mestu leyti veiddir í botnvörpu og eru talsverðar mælingar tiltækar til að meta brottkast á þeim. Brottkast á ufsa var ekki mælanlegt, en þó mátti greina minniháttar brottkast á smáufsa. Brottkast á gullkarfa var ekkert samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.

Mestu kastað við dragnótaveiðar

Hlutfallslega mest brottkast á þorski á sér stað í dragnótaveiðum en um 7,3% af lönduðum afla var hent við þær veiðar 2002 samkvæmt skýrslunni. Í önnur veiðarfæri var brottkastið um eða undir 1%.

Brottkast þorsks í netaveiðum mældist 1,2% en var 3% árið 2001 og hefur það því minnkað umtalsvert milli ára samkvæmt þessu.

Brottkast þorsks við línuveiðar hefur einnig minnkað en það hefur staðið í stað við botnvörpuveiðar.

Stærsta fiskinum kastað við netaveiðar

Mjög misjafnt er eftir veiðarfærum hvaða stærð af fiski er kastað. Brottkast þorsks í net er til dæmis mjög frábrugðið brottkasti í önnur veiðarfæri hvað varðar stærð fisks.

Brottkastið þar var aðallega stærri fiskur en 50 cm og allt upp undir 80 cm að lengd. Stærstur hluti brottkastsins var 50-70 cm fiskur.

Í línuveiðum var brottkast þorsks að mestu miðað við fisk minni en 45 cm. í dragnótaveiðum var einnig hent mun stærri þorski en í línu- og botnvörpuveiðum. Þar var 40-60 cm fiskur algengastur í brottkastinu.

Brottkast ýsu í línuveiðum takmarkaðist að mestu við fisk minni en 40 cm. Brottkast ýsu í dragnót beindist að allt upp í 50 cm fiski.

Brottkast ýsu í botnvörpu takmarkaðist við 30-40 cm fisk.

Lágmarksmat á brottkasti

Þessar mælingar benda til þess að talsvert hafi áunnist í því að stemma stigu við brottkasti á helstu botnfisktegundum að ýsu undanskilinni, segir í skýrslunni.

Brottkast hefur almennt minnkað en er enn til staðar í ýmsum veiðum og losar 4.000 tonn í heild í umræddum veiðum á helstu botnfiskum. Brottkast þorsks og ýsu árið 2001 var metið 4.830 tonn.  Brottkast á flestum öðrum fisktegundum er óþekkt stærð.

„Þær niðurstöður sem hér liggja fyrir ná aðeins til afmarkaðs hluta brottkastsins, þ.e. þess hluta sem mælist með þeirri aðferð sem beitt er. Ekki er unnt að meta hversu stór þessi hluti er af heildarbrottkasti. Niðurstöðurnar ber því að skoða sem lágmarksmat á brottkasti á Íslandsmiðum,“ segir í skýrslunni.

Mælir ekki tilviljanakennt brottkast

Meginreglan við gagnasöfnun hjá dagróðrarbátum var að velja báta af handahófi til mælinga. Mælt var úr tilteknum báti við löndun, þ.e. eftir hugsanlegt brottkast, og síðan fóru eftirlitsmenn með sama báti í næsta róður og mælt var úr afla upp úr sjó, þ.e. fyrir hugsanlegt brottkast ef eftirlitsmenn hefðu ekki verið um borð.

Með samanburði á lengdardreifingu aflans í þessum tveimur róðrum er brottkast metið. Ef fiskurinn reynist mun smærri í seinni veiðiferðinni bendir það til brottkasts.

Rétt er að hafa í huga að forsendur þessara útreikninga eru þær að ekkert brottkast eigi sér stað eftir að tiltekinni lengd er náð. Aðferðin mælir ekki brottkast ef fiski er hent tilviljanakennt án tillits til lengdar eða ef öllum fiski er hent af tiltekinni tegund.