Skip Sigurjóns Óskarssonar, Þórunn Sveinsdóttir VE, varð ellefu sinnum aflahæst á vetrarvertíð í Eyjum og nokkrum sinnum aflahæst yfir landið allt. Á árinu 1989 fiskuðu Sigurjón og skipshöfn hans 840 tonn í marsmánuði einum og samtals 1.917 tonn á vertíðinni allri. Það aflamet hefur ekki verið slegið ennþá.

„Á fyrstu árum mínum til sjós skiptust menn á upplýsingum um það hvar fisk væri að finna, rétt eins og gert er í dag. Þá fóru samskiptin í gegnum talstöðina og fólust í því að gefa upp leynitölur sem gáfu til kynna hvar menn væru með netin og hversu mikið þeir fengju í hverja trossu. Fimm til sex bát ar voru gjarnan saman í bandalagi og þeir skiptust á þessum upplýsingum tvisvar á dag. Hins vegar voru menn auðvitað misjafnlega heiðarlegir í þessari upplýsingagjöf sinni,“ segir Sigurjón.

Margfalt fleiri vertíðarbátar

„Vertíðarbátarnir á þessum tíma voru margfalt fleiri en í dag, það er ólíku saman að jafna. Frá Vestmannaeyjum reru 70 til 100 bátar, bæði heimabátar og aðkomubátar frá Austfjörðum. Menn voru gjarnan á línu framan af ári en þegar loðnan var gengin yfir í mars skiptum við allir yfir á net. Aflahrotan í kringum páskana tengdist yfirleitt stækkandi straumi en segja má að um sumardaginn fyrsta fór verulega að fjara undan fiskiríinu. Það var hefð í Eyjum að konurnar fengju að eiga hlutinn þann dag. Þá var hending ef 15-20 tonn fengjust í róðri. Þegar ég byrjaði með pabba vorum við með 6-7 trossur. Ég man að það var mikill meting ur milli manna um að ná sem mestum afla. Sumir voru að læðast með baujur um borð að nóttu til svo enginn kæmist að því hversu margar trossur þeir væru með. Það fór svo eftir því hversu duglegir menn voru og hversu góða skipshöfn þeir höfðu hve mikið af netum þeir lögðu í sjó. Einnig fór netafjöldinn eftir því hversu mikla áherslu menn lögðu á gæði aflans.“

Enginn akkur í að veiða stórfisk

Að sögn Sigurjóns var afli bátanna mjög misjafn milli vertíða eins og gefur að skilja. Stundum voru hæstu bátar á vertíðinni með um 700 tonn og þá var meðalbáturinn kannski með um 500 tonn. Á stórum vertíðum komust hins vegar þó nokkrir bátar yfir 1000 tonn. Yfirleitt þótti gott að fá 10-15 tonn í róðri.

„Þegar ég var að byrja til sjós var aflinn gefinn upp í fjölda fiska. Ef fiskarnir voru eitt þúsund samsvaraði það hátt í 10 tonna afla, sem þýddi næstum 10 kíló í meðalþyngd. Síðan fór fiskurinn smækkandi þegar menn smækkuðu riðilinn í netunum. Við vorum mikið með 7 og hálfa tommu möskva og allt niður í 6 tommu en sá riðill var nokkuð algengur. Á þessum tíma réðst verðið af ákvörðunum Verðlagsráðs og enginn sérstakur akkur var í því að fá mjög stóran fisk gagnstætt því sem nú er.“

Áður fyrr var alls staðar fiskur

„Hér á árum áður var miklu meiri þorskur í sjónum en núna. Það er alveg ljóst. Á þeim tíma fóru menn varla á hraunin með trossurnar því veiðarfærin voru svo léleg að þau þoldu það ekki. Ég sagði stundum við pabba, sem var aflakóngur í nokkur skipti á sinni tíð, að það hefði ekki verið neinn vandi að veiða þá daga því þeir gátu bara lagt trossurnar fimm til sex í röð og alls staðar var fiskur. Síðar meir urðum menn að leita miklu meira að fiskinum og byrjað var að leggja netin á hraun og snaga enda tæknin orðin miklu meiri og veiðar færin sterkari.“

– Hvers vegna er svona miklu verr komið fyrir þorskstofninum nú en var í þá daga?

„Það er mikið umhugsunarefni. Ég spyr mig að því hvers vegna tekist hafi að ná ýsustofninum og ufsastofninum svona mikið upp en ekki þorskstofninum, þrátt fyrir að sama veiðistjórnunarkerfi sé notað á alla þessa stofna. Ég skil það ekki. Um það er deilt hvort skýringin sé sú að of mikið sé veitt af smáum fiski eða of mikið af stórum fiski. Talsmenn beggja sjónarmiða hafa kannski eitthvað til síns máls. Þá má nefna að sóknin hefur breyst mikið og nú er veitt meira í troll en áður. Á móti kemur hins vegar að ýsan er mikið veidd í troll en samt stækkar ýsustofninn. Þetta stangast því hvað á annað.“

Aðeins 5-6 netabátar í Eyjum núna

– Hafrannsóknastofnun segir að skýringin sé einföld: Þorskstofninn er svona lítill vegna þess að of mikið hefur verið veitt úr honum. Getur þú tekið undir það?

„Ég fékk mér bíltúr út í Stórhöfða um daginn og horfði út á haf. Ég sá hvergi skip á sjó. Hörð sókn báta hér á vertíðarsvæðinu getur ekki verið skýringin á því hvernig komið er fyrir þorskstofninum. Ætli séu ekki 5-6 bátar í Eyjum á netum núna og svo hefur verið undanfarin ár. Það er sannarlega af sem áður var. Og þetta er ekki bundið við Vestmannaeyjar. Sömu sögu er að segja frá stöðum allt í kring um landið.“