„Þetta er allt ennþá á umræðustigi. Ég kynnti þarna ákveðna hugmynd sem fróðlegt væri að hrinda í framkvæmd. Ég hef reynslu af svipuðu verkefni sem fram fór í Stöðvarfirði á árunum 1995-1996. Það fólst i því að fóðra villtan þorsk og byggðist á að safna fiskinum saman á ákveðinn stað, bæði með hljóðmerkjum og fóðri,“ sagði Björn Björnsson, sérfræðingur í eldi sjávardýra hjá Hafrannsóknastofnuninni, en hann kynnti á fundinum yfirlit yfir fiskeldisrannsóknir stofnunarinnar.
Þorskurinn vill frekar loðnu en rækju
Björn sagði að innfjarðarrækjustofninn í Arnarfirði væri nánast eini stofninn sem eftir er. Á öðrum stöðum hefðu slíkir stofnar nánast verið að klárast einn af öðrum, aðallega vegna aukinnar þorskgengdar á grunnslóð.
![Fiskifréttir 19. nóvember 2004.](http://vb.overcastcdn.com/images/141104.width-500.jpg)
„Menn eru uggandi út af þessu ástandi. Rækjan er komin í hnapp í Borgarfirði sem er lítill fjörður inn af Arnarfirði. Þar fyrir utan er þorskur sem virðist vera að éta mikið af rækju. Sú hugmynd kviknaði að hugsanlega væri hægt að bjarga stofninum með því að gefa þorskinum loðnu reglubundið. Við höfum þá trú að þorskurinn vilji frekar loðnu en rækju ef hún býðst. Ef þessu verkefni verður hrint í framkvæmd hefði það tvíþætt markmið. Í fyrsta lagi er fróðlegt að kanna hvort þetta sé hægt og í öðru lagi hvort unnt sé að gera þetta á hagkvæman hátt; hvort ávinningurinn sé meiri en kostnaðurinn.“
Fóðraður í gildru
Fram kom hjá Birni að hugmyndin væri sú að koma fyrir botnlausri kví í mynni Borgarfjarðar. Kvíin myndi virka sem gildra. Þorskurinn yrði fóðraður í henni. Þegar hann hefði verið vaninn á fóðrið væri hægt að loka kvínni að neðan eftir að þorskurinn safnaðist saman í henni. Síðan yrði hann stærðarflokkaður og fluttur burt til áframeldis, til dæmis á þeim stöðum á Vesttjörðum þar sem áframeldi fer fram.
Lauslega áætlað er talið að um 200 tonn af þorski séu í þessum hluta fjarðarins. Stærstur hluti þorsks á þessu svæði er smár fiskur sem hentar vel til áframeldis en meðalþyngd hans er um 300 grömm. Hægt er að setja fisk af þessari stærð beint í sjókvíar.
„Þessi þorskur getur margfaldað stærð sína í áframeldi og er til dæmis mun hagkvæmari í eldi en 2ja kílóa fiskur sem verið er að veiða í einhverjum mæli til áframeldis,“ sagði Björn.
Frumkvæði heimamanna
- Hvernig kviknaði þessi hugmynd?
„Þetta hófst með því að heimamenn á Bíldudal komu að máli við Hafrannsóknastofnun til að ræða hvort einhverjir möguleikar væru á því að hrekja þorskinn burt. Í fyrstu var verið að ræða um loftbóluteppi og hljóðmerki. Á vinnufundi hér innanhúss síðar viðraði ég þessa hugmynd í ljósi fyrri rannsókna.“
- Hvenær væri hægt að hrinda þessu verkefni í framkvæmd?
Enn sem komið er er þetta hugmynd en við viljum gjarnan hrinda verkefninu sem fyrst í framkvæmd. Þetta veltur allt auðvitað á því hvort fjármunir fáist í verkefnið.“