Að sögn Gísla Jóns Gústafssonar, framleiðslustjóra hjá Portlandi, kom í ljós að ekki borgar sig að óbreyttu fyrir fyrirtækið að láta vinna kola í Kína nema allra smæsta fiskinn. Þar er hins vegar um svo lítið magn að ræða að óvíst er hvort hagkvæmt þyki að taka það í vinnslu í Kína.

„Ástæðan fyrir því að við fórum út í þessa tilraunavinnslu er sú að við mættum samkeppni á ákveðnum mörkuðum frá flatfiski sem var unninn i Kína. Greinilegt var að kínversk fyrirtæki gátu í einhverjum tilvikum boðið upp á ódýrari kolaflök en við. Okkur langaði til að komast að því hver ávinningurinn er af því að vinna fiskinn í Kína,“ sagði Gísli.

Borgar sig að vinna smáan vinnuaflsfrekan flatfisk

Fiskifréttir 9. september 2005.
Fiskifréttir 9. september 2005.

Gísli sagði að sá koli sem kallar á mjög mikla handavinnu í vinnslu, þ.e. koli sem er mjög smár, kemur betur út í vinnslu í Kína. Helstu hindranir fyrir því að láta vinna annan kola þar felast í  því  að koli framleiddur í Kína fer í annan verðflokk á mörkuðum en koli framleiddur á Íslandi, jafnvel þótt um nákvæmlega sama hráefnið sé að ræða. Menn eru vanir því að fá Kínafiskinn á lægra verði og erfitt er að breyta því. Til viðbótar kemur svo að framleiðendur þurfa að taka á sig toll sem leggst á fisk unninn í Kína sem fluttur er á Evrópumarkað.

„Þessi tolla- og verðflokksmunur gerir það að verkum að ekki borgar sig að vinna nema allra smæsta og vinnuaflsfrekasta flatfiskinn í Kína,“ sagði Gísli.

Of lítið magn

Gísli tók fram að þótt sýnt hefði verið fram á það í þessari tilraun að það borgaði sig að vinna smæsta flatfiskinn í Kína væri sá hængur á að Portland tæki aðeins á móti eitthvað innan við 200 tonnum afsmáum kola á ári. Það magn væri miðað við núverandi forsendur of lítið til að hagkvæmt sé að láta vinna það fyrir sig í Kína.

- Hafið þið tekið ákvörðun um næstu skref?

„Við erum að fá fulltrúa frá kínversku verksmiðjunni á fund til okkar á næstu vikum. Ljóst er að  það er ekki mikill ávinningur fyrir þetta tiltekna kínverska fyrirtæki sem við erum í samstarfi við að vinna aðeins 100-200 tonn af kola á ári en ef þeir eru tilbúnir til þess munum við eflaust reyna að þróa vinnslu í Kína áfram. Framhaldið ræðst alfarið af því hvaða framboð verður af hráefni sem borgar sig að láta vinna í Kína. Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að láta vinna flatfisk í Kína sem fenginn er annars staðar frá en af Íslandi og nota þá vinnslu- og markaðsþekkingu okkar. Óvíst er á þessu stigi hver niðurstaðan úr þeim athugunum verður.“