Humarbátarnir eru nú á veiðum við Eldey og er reiknað með að vertíðinni ljúki um næstu mánaðamót eða fyrstu dagana í ágúst. Samkvæmt vef Fiskistofu var búið að veiða nú í byrjun vikunnar 472 tonn af humri miðað við slitið af um 560 tonna kvóta.

„Vertíðin hefur gengið mjög vel og við vorum að skríða yfir 120 tonn í hölum talið um helgina,” sagði Jón Páll Kristófersson, rekstrarstjóri Ramma hf. í Þorlákshöfn, í samtali við Fiskifréttir þann 13. júlí 2007.

Mjög stór humar við Eldey

„Við megum veiða 131 tonn og miðað við ganginn undanfarið verðum við búnir með kvótann í lok júlí. Við hófum veiðar í byrjun apríl og erum með 3 báta á humarveiðum, Jón á Hofi, Fróða og Þuríði Halldórsdóttur sem við keyptum í vor. Fyrstu tvo mánuðina voru bátarnir að veiðum fyrir austan en þeir hafa eingöngu haldið sig vestur við Eldey frá því í maí enda meira af humri þar en mörg undanfarin ár.

Samkvæmt reglugerð verða humarbátarnir að halda sig á ákveðnum svæðum en mælingar Hafró sýna að humarinn er að finna mun víðar. Humarinn sem fæst við Eldey er mjög stór og mun stærri en sá sem veiðist fyrir austan. Í dag starfa um 40 manns hjá Ramma í landi við humarvinnsluna,“ sagði Jón Páll Kristófersson.

Væntingar hafa staðist

„Við hófum humarveiðar skömmu eftir páska og gerum út þrjá báta til veiðanna,“ sagði Hermann Stefánsson, framleiðslustjóri hjá Skinney-Þinganesi í Hornafirði.

Fiskifréttir 13. júlí 2007.
Fiskifréttir 13. júlí 2007.

„Það er Erlingur, Skinney og Þórir og þeir eru búnir að veiða rúm 100 tonn af þeim 150 tonnum sem við megum eiða. Mælingar Hafró lofuðu góðu fyrir vertíðina og þær væntingar hafa staðist og í raun miklu meira en það því veiðarnar hafa gengið vel og aflabrögð verið með ólíkindum og meiri en nokkru sinni fyrr. Ég á fastlega von á að við verðum búnir með kvótann í byrjun ágúst. Vinnsla hefur einnig gengið vel en einkenndist þó af því að humarinn var fremur smár á austursvæðinu og því mikil handavinna og pillerí við að vinna hann. Allt að 100 manns starfa við humarvinnsluna hjá Skinney-Þinganesi þegar mest er. Humarinn sem við vinnum fer á markað á Spáni, Italíu, Japan og Kanada svo nokkrir staðir séu nefndir. Verðið fyrir humarinn er vel viðunandi en það fer að sjálfsögðu eftir stærðinni og í hvaða flokk humarinn lendir.“

Vinnsla í landi hefur ekki undan

„Veiðarnar hafa gengið mjög vel í allt sumar,” sagði Sigurbjörn Ólason, skipstjóri á Þuríði Halldórsdóttur GI, þegar Fiskifréttir náðu tali af honum snemma í vikunni þar sem hann var við veiðar norðan við Eldey.

„Það er búin að vera mokveiði af stórum humri við Eldey frá því að við fluttum okkur hingað í seinni hluta maí. Veiðin er reyndar aðeins farin að róast en er búin að vera algert ævintýri í sumar. Við hófum vertíðina fyrir austan og veiðin þar var svo mikil að hún nálgaðist að vera „bull“ eins og einhver orðaði það. Veiðar fyrir vestan hófust líka mun fyrr en áður hefur gerst. Yfirleitt hafa bátarnir farið að eiga við humar hér fyrir vestan í júní en að þessu sinni hófust veiðar í maí og það rótveiddist frá fyrsta degi. Fljótt á litið erum við búnir að veiða rúm 20 tonn af hölum og vinnslan ekki haft undan á köflum. Hér áður þótti eðlilegt að ná einu og hálfu tonni á þremur sólarhringum en í sumar höfum við hæglega náð því á einum og hálfum til tveimur sólarhringum og því stundum verið meira í landi en úti á sjó,” sagði Sigurbjörn Ólason, skipstjóri á Þuríði Halldórsdóttur.

Hornafjarðarbátarnir farnir vestur

Björn Ármannsson, skipstjóri á Skinney, sagði að hann hefði flutt sig vestur fyrir tæpum mánuði eftir að hann hafði gefist upp fyrir austan en Skinney er nú að veiðum norðan við Eldey eins og aðrir bátar.

„Humarinn er stærri fyrir vestan og það var fín veiði hér þegar við byrjuðum en þetta er bölvað nudd eins og er en við lönduðum 45 körum á sunnudaginn. Af öðrum bátum Skinneyjar-Þinganess hefur Erlingur verið og svo bættist Þórir í hópinn á mánudaginn,“ sagði Björn Ármannsson.