Þorbjörn Fiskanes hf. gerir Albatros út auk þriggja annarra línubáta. Tölur útgerðarinnar staðfesta mjög góðan meðalafla hjá þeim eða 550 kíló á rekkann frá áramótum til marsloka. Á sama tíma í fyrra var meðalaflinn 450 kíló á rekkann. Sé þetta umreiknað í afla á hvern bala, þá gerir það 150 kíló á bjóð það sem af er þessu ári.
Þegar rætt var við Kolbein voru þeir staddir á BUR-bankanum norðan við Eldeyjarbankann.
„Við höfum haldið okkur vestan og suðvestan við landið undanfarna mánuði. Fram að jólum vorum við mikið á Látragrunni, á Brjálaða hryggnum og í Kolluálnum en eftir áramótin á Eldeyjarbankanum, í Grindavíkurdýpinu og á Jökulbankanum. Sú var tíðin að línubátamir af suðvesturhorninu fóru mikið til veiða austur fyrir land á haustin en þess hefur ekki gerst þörf í seinni tíð enda er þorskur um allan sjó,“ segir Kolbeinn.
Óhætt að veiða 250.000 tonn af þorski

– Telurðu að meira sé af þorski í sjónum en fiskifræðingar álíta?
„Já, ég held að þorskstofninn sé í miklu betra ásigkomulagi en Hafrannsóknastofnun gefur út. Ég botna ekkert í þessum útreikningum vísindamannanna. Þorskgengd hefur farið vaxandi síðustu tvö til þrjú árin og á því er ekkert lát. Þetta endurspeglast engan veginn í afla bátanna því þeir eru allir á bremsunum vegna kvótaleysis. Alveg frá árinu 1991 hefur verið predikað yfir okkur að nauðsynlegt sé að geyma fiskinn í sjónum og leyfa honum að vaxa. Hver er árangurinn af því? Hvar er allur þessi fiskur sem geymdur var og ætti nú að vera orðinn stór? Ég tel að breyta eigi um stefnu og leyfa veiðar á 250.000 tonnum af þorski. Það mun örugglega ekki skaða stofninn. Ég er ekki að mæla með neinni rányrkju, ég vil bara að látið verði af þeirri ofstjórn sem verið hefur á þessum málum.“
– En hvernig stendur á því að mokafli er á línuna á sama tíma og netaafli hefur iðulega verið tregur?
„Ætli það sé ekki fyrst og fremst vegna þess að notuð eru net með stórum riðli sem aðallega eiga að fanga stóran fisk. Hins vegar virðist lítið vera til af þeim stóra í sjónum. Stærðin á þorskinum sem við á þessum báti veiðum er á bilinu 3-6 kíló en slíkur fiskur fæst kannski ekki mikið í net með 8-9 tommu möskvum. Stundum er því haldið fram að þorskurinn fáist frekar á línu en í önnur veiðarfæri því hann sé hungraður og dreifður um allan sjó og leiti í agnið. Ég kannast ekki við að hafa séð þennan horaða fisk. Þorskurinn sem gengur hér upp á haustin er vel haldinn og fullur af lifur sem bendir til þess að hann hafi verið einhvers staðar í góðu yfirlæti yfir sumarið. Það getur vel verið að hægt sé að finna illa haldinn fisk inni á einhverjum flóum eða fjörðum en almennt er ástandið gott. Þorskurinn virðist til dæmis ekki sækja mikið í loðnuna núna sem bendir til þess að hann líði ekki skort,“ segir Kolbeinn.
Ekki rétt að kvótasetja keilu og löngu
Kolbeinn segir að keilustofninn virðist vera í vexti og keilukvótinn dugi varla fyrir meðafla á línuveiðum.
„Þetta hefur sloppið hjá okkur hingað til en það er alltaf varasamt þegar kvóti í aukategundum er hafður svo lítill að hann torveldar veiðar á aðaltegundunum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ekki hefði átt að kvótasetja keiluna og lönguna. Skynsamlegra hefði verið að beita svæðalokunum til lengri tíma. Þannig hefði t.d. mátt loka svæðum á Kötlugrunni, Síðugrunni og Öræfagrunni, þar sem keilan heldur sig, auk þess að takmarka sóknina í kantana fyrir austan Vestmannaeyjar. Hins vegar verður að hafa meira frjálsræði gagnvart þessum aukategundum uppi á grunnunum þar sem við erum að veiða þorskinn og ýsuna. Loks má svo nefna að ég skil ekki þá ráðstöfun stjórnvalda að hleypa Norðmönnum og Færeyingum í keilu- og löngustofninn á sama tíma og íslenskum skipum er stefnt í vandræði vegna þess að þau hafa ekki nægan kvóta fyrir meðafla þessara tegunda.“
Vitlaus tillaga
Talið barst að lokum að tillögunni um upptöku línuívilnunar, sem samþykkt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og sjávarútvegsráðherra hefur sagst munu framfylgja. Hún gerir ráð fyrir að einungis dagróðrabátar njóti línuívilnunar í kvóta en ekki útilegubátar eins og beitningarvélabátarnir eru.
„Ég hef litla trú á að svona vitleysa nái fram að ganga. Ef tilgangurinn er sá að efla atvinnu á landsbyggðinni vil ég benda á aðeins einn línubátur með beitingarvél er gerður út í Reykjavík. Allir aðrir eru gerðir út frá stöðum á landsbyggðinni, þar með taldir bátarnir í Grindavík. Þeir veita atvinnu í sínum heimabyggðum rétt eins og dagróðrabátarnir. Ég bendi á að Vestfirðingar hafa nýlega eignast tvo beitingarvélabáta, Kóp og Sólrúnu, og það mun ekki líða á löngu þar til litlir línubátar verða einnig komnir með beitningarvélar. Slíkar vélar eru þegar komnar á markaðinn. Ég held að nær væri að auka þorskkvótann en að útdeila svona bitlingum til afmarkaðra hópa,“ sagði Kolbeinn Marínósson.