Við fengum tæp 70 tonn af þorski í níu róðrum í síðasta mánuði og aflaverðmætið var rétt tæpar átta milljónir króna. Við erum þrír á bátnum og hluturinn var 800 þúsund krónur eftir mánuðinn eða tæpar 100 þúsund krónur á úthaldsdag. Menn gera það ekki betra á frystitogurunum eða öðrum fiskiskipum í íslenska flotanum,“ segir Arnar Þór Ragnarsson, skipstjóri á smábátnum Hópsnesi GK 77, í samtali við Fiskifréttir.
Arnar og félagar hans hafa fiskað ótrúlega á línuna nú í vetur.
Hópsnes GK er sex brúttórúmlesta plastbátur og er hann í eigu Stakkavíkur í Grindavík. Að sögn Arnars fór hann í fyrsta róðurinn á þessum báti 17. september sl. og hann segir aflann frá því í haust vera alls um 100 tonn af þorski, 25 tonn af ýsu og smávegis af keilu og löngu.
„Við löndum þorskinum óslægðum á fiskmarkað í Ólafsvík og meðalverðið fyrir þorskinn var 124 kr/kg hjá okkur í nóvember. Besti róðurinn okkar var 2. nóvember sl. en þá fengum við rúm 11,6 tonn af hreinum þorski í lögninni. Aflaverðmætið var 1.700 þúsund krónur. Við róum með 36 bala þannig að þessi afli samsvarar vel á fjórða hundrað kílóum af þorski á balann. Þennan afla fengum við austan við hólfið á Flákanum en þar er engu líkara en hægt sé að ganga að þorskinum vísum,“ segir Arnar.
Ýsan lætur bíða eftir sér
„Við fengum 10,7 tonn af þorski á þessum stað 17. nóvember sl. og ferðinni er heitið þangað á morgun. Það er pottþétt að við fáum ekki undir átta til níu tonnum af þorski í þeim róðri. Það klikkar ekki,“ heldur Arnar áfram.
Að sögn Arnars er Hópsnesið á svokölluðu þorskaflahámarki og þorskkvóti bátsins er um 300 tonn. Aðrar tegundir svo sem ýsa og steinbítur eru utan kvóta og því er mikilvægt að reyna að veiða sem allra mest af aukategundunum með þorskinum.
„Við erum alltaf á höttum eftir ýsu en hún hefur látið bíða eftir sér það sem af er vetri. Við vorum að fá mjög góðan ýsuafla í nóvember og desember í fyrra en það er eins og að hlýi sjórinn hér í Breiðafirðinum hafi seinkað ýsunni. Við bíðum eftir henni og eftir áramótin byrjun við fljótlega að svipast um eftir steinbítnum,“ segir Arnar.
Arnar segir þorskinn hafa verið mjög góðan í vetur. Uppistaðan í aflanum er fimm til sex kílóa þorskur en hins vegar hafi þorskurinn verið mun blandaðri af stærð þegar aflinn var hvað mestur. Þá hafi verið töluvert um tveggja og hálfs til þriggja kílóa þorsk.
Allir á netaveiðar ef aukategundir með þorskinum verða settar í kvóta.
Það kemur fram í spjallinu við Arnar að ein af ástæðunum fyrir því hve aflabrögðin hafi verið góð sé sú að margir bátar við Breiðafjörð hafi ekki nægan þorskkvóta til þess að geta farið með veiðarfæri á svæði þar sem vitað er að uppistaðan í aflanum er þorskur.
„Það má segja að við höfum eiginlega verið einir um hituna. Samt höfum við reynt að treina kvótann og hvíla veiðisvæðið og það er engin spurning að það hefur mikið að segja. Við höfum komið að þessi svæði ósærðu og það vantar ekki mikið upp á að hægt sé að0 skammta sér aflann. Tíðarfarið erþað eina sem við ráðum ekki við en það hefur verið leiðinlegt í vetur, segir Arnar.
Arnari líst illa á það að þorskaflahámarksbátarnir þurfi frá og með næsta fiskveiðiári að leggja til kvóta á móti öllum kvótabundnum aukategundum sem veiddar eru með þorskinum.
„Þetta mun leiða til mikillar fækkunar smábáta og þeir, sem eftir verða, munu krefjast þess að fá að veiða kvóta sinn í net í stað þess að stunda kostnaðarsamar línuveiðar. Það er miklu ódýrara að stunda netaveiðar. Fyrir vikið munum við allir fara að veiða stóra þorskinn og allur aflinn mun fara til vinnslu hjá Stakkavík í Grindavík,“ segir Arnar. Saltfiskverkunarfyrirtækin vilji helst bara þorsk sem sé átta kíló eða þyngri.
Slæmt fyrir landsbyggðina
„Það verður því sótt í hann af enn meiri krafti en nú er gert. Þá held ég að menn hafi ekki hugsað þetta mál til enda hvað varðar landsbyggðina. Þessir litlu línubátar skapa gríðarlega atvinnu út um allt land. Við erum þrír á þessum báti og það eru fimm manns í vinnu við að beita fyrir okkur í landi. Það eru því átta manns sem byggja afkomu sína af útgerð þessa eina báts og þá tel ég ekki með þau störf sem vinnsla aflans og þjónusta við bátinn skapar í landi,“ segir Arnar Þór Ragnarsson.