Feðgarnir Ólafur Sigurðsson og Haraldur Ólafsson á Særúnu EA 251 hafa verið að draga innan við Flatey undanfarið og eru býsna sáttir með aflabrögðin fyrstu daga vertíðarinnar á grásleppu.
„Ég hef verið að draga hérna síðan á fimmtudag og þetta er svona tonn í sex trossur, og svipað af þorski,“ sagði Ólafur þegar Fiskifréttir náðu tali af honum á mánudag.
Það er helst veðrið sem hefur sett strik í reikninginn þessa fyrstu daga.
„Það gerði mikinn hvell hérna á föstudag og það fór svolítið illa þá. Þetta fór upp í sjö metra ölduhæð þar sem var grynnst hérna. Það var ekki nógu góð útkoma úr netunum.“
Vertíðin hófst 20. mars og Ólafur segir horfurnar bara góðar.
„Ef veður helst almennilegt þá er maður þokkalega bjartsýnn. Það þýðir ekkert annað. Verðið er heldur ekki að skemma fyrir, það er komið yfir 270 krónur heyrist mér. Ég hef heyrt 272.“
Verðið hefur þar með hækkað um 70 prósent frá árinu 2016 þegar það stóð í 160 krónum. Það var komið upp í 223 í fyrra.
„Svo er þetta svo gaman og gefandi,“ sagði Ólafur en hafði ekki míkinn tíma til að spjalla því hann var kominn að bauju.
Ólafur rekur ásamt Pétri bróður sínum fjölskyldufyrirtækið Sólrúnu á Árskógssandi. Faðir þeirra bræðra og afi, þeir Sigurður Konráðsson og Konráð Sigurðsson, stofnuðu fyrirtækið sem undanfarið hefur gert út krókaaflabátana Særúnu EA 251 og Sólrúnu EA 151.
Miklar skemmdir urðu á Sólrúnu þegar eldur kom upp í bátnum í fyrra.
„Bróðir minn Pétur er í landi og svo eru sonur hans og sonur minn yfirleitt saman með Sólrúnu, en hún er á Siglufirði í klössun núna. Við erum núna saman feðgarnir á Særúnu. Hann er fjórði ættliður í þessu dæmi.“
Sjá fleiri myndir frá Þorgeiri Baldurssyni, ljósmyndara, hér.