Ekki er loku fyrir það skotið að Landhelgisgæslan þurfi að leigja frá sér þyrluna TF-SYN í verkefni erlendis vegna fjárskorts. Stofnunin hefur þetta til skoðunar og þá að þyrlan myndi sinna verkefnum erlendis í tvo mánuði á þessu ári.
Frá þessu greinir Morgunblaðið í blaði dagsins.
Þar segir að hugmyndin sé að brúa bilið á því gati sem hefur myndast við lækkun fjárheimilda í fyrra, en Morgunblaðið birtir greiningu á fjárhagslegri stöðu Gæslunnar í umfjöllun sinni.
Samkvæmt fjáraukalögum sem Alþingi samþykkti undir lok nýliðins árs voru framlög til Landhelgisgæslunnar lækkuð um 61,4 milljónir fyrir árið 2017 vegna breyttra gengisforsendna. Og samkvæmt fjárlögum ársins 2018 lækka framlög til rekstrar LHG um 20,2 milljónir króna á milli ára, kemur fram í fréttinni.
Eins og Fiskifréttir hafa fjallað um hefur verið ákveðið að kaupa þrjár nýjar björgunarþyrlur fyrir Gæsluna og undirbúningsvinna hófst í fyrrasumar. Gerð verður þarfagreining sem átti að ljúka við nú um áramótin og við tekur undirbúningur á útboðsgögnum með ríkiskaupum sem lokið verður fyrir árslok. Útboðið stendur yfir árið 2019 en þyrlurnar afhentar árin 2021 og 2022.