„Það að það sé verið að leggja starfsemina af hér í Hafnarfirði leggst alls ekki vel í okkur,“ segir Eyþór Þ. Árnason, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði, um uppsagnir starfsmanna hjá Fiskvinnslunni Kambi.
Allir 31 sem Brim sagði upp hjá Kambi í gær eru almennir starfsmenn í vinnslunni og félagsmenn í Hlíf.
„Þetta er eitthvað sem þeir hafa ákveðið að gera og þeir hafa náttúrlega sinn rétt til þess,“ segir Eyþór um ákvörðun Brims sem hafði áður en til uppsagnanna kom tilkynnt þær til Hlífar og Vinnumálsastofnunar í samræmi við reglur þar um.
Eyþór kveðst hafa farið í Kamb eftir uppsagnirnar í gær til að ræða við sitt félagsfólk.
„Ég hitti rúmlega helming starfsfólksins og bauð fram aðstoð mína ef það væri eitthvað óljóst. Ég sagði vinnslustjóranum líka að hafa endilega samband við mig ef hann fengi spurningar sem hann væri ekki klár á. Okkar hlutverk núna er að framfylgja þeim réttindum og skyldum sem fólkið á og hefur gagnvart fyrirtækinu þegar að svona gerist,“ segir Eyþór.
Að sögn Eyþórs sýndist honum starfsfólkið taka tíðindunum af æðruleysi. „Það virtist eins og það væri búið að vinna ákveðna vinnu, að þetta væri í farvatninu. Eftir því sem ég best veit á að bjóða allflestu af þessu fólki vinnu í Norðurgarði,“ segir hann.
Eins og fram kom hér í Fiskifréttum fyrr í dag hyggst Brim hætta botnfiskvinnslu í Hafnarfirði í síðasta lagi í lok október og starfsemin sameinuð botnfiskvinnslu Brims í Norðurgarði í Reykjavík. Einmitt verði leitast við að finna starfsfólkinu í Hafnarfirði störf þar eða annars staðar innan samstæðu félagsins.
Aðspurður segir Eyþór marga af starfsmönnunum hafa áralanga starfsreynslu hjá Kambi. Talsverður hluti hópsins sé af erlendu bergi brotinn og búi víðs vegar um höfuðborgarsvæðið.
„Það kom fram að Brim ætli að bjóða samgöngustyrki, kort í strætó og bifreiðastyrki fyrir þá sem sameinast í bíla,“ segir formaður Hlífar.