Kanadamenn halda áfram að skera niður rækjukvóta við Nýfundnaland og Labrador á þessu ári. Kvótaniðurskurðurinn gæti haft slæm áhrif á rækjuvinnslu á Íslandi, að því er Yngvi Óttarsson hjá Íslensku útflutningsmiðstöðinni segir í samtali við Fiskifréttir sem komu út í morgun.
Yngvi bendir á að stór hluti af hráefni íslenskra rækjuverksmiðja sé fryst rækja frá Kanada. Í fyrra hafi þetta numið um 10 þúsund tonnum af 20-25 þúsund tonna hráefni í heild sem hér hafi verið unnið. Ef Kanadamenn færu sjálfir að vinna meira af því frysta hráefni sem hingað til hefði verið selt til Íslands gætu rækjuverksmiðjur á Íslandi lent í hráefnisskorti. Tiltölulega lítið hefði verið til sölu af hráefni úr Barentshafi síðustu árin og nánast ekkert frá Grænlandi.
Rækjuaflinn við austurströnd Kanada var 120.000 tonn í fyrra en verður að líkindum 25-30 þúsund tonnum minni í ár. Þegar allt lék í lyndi fyrir 5-7 árum var aflinn 180-200 þúsund tonn á ári.
Sjá nánar í Fiskifréttum .